Dagný María Sigurðardóttir er félagsráðgjafi og sjúkraliði. Hún er að ljúka rannsóknarmiðuðu námi til meistaragráðu í félagsráðgjöf þar sem hún aflar sér sérþekkingar í að nota dýr sem aðstoðarþerapista í meðferðarvinnu (e. Animal Assisted Therapy). Lokaverkefni hennar var þróunarverkefni um hópastarf með félagslega einangruðum börnum, þar sem markmiðið var að efla tengsl við önnur börn með aðstoð dýra.
Lokaáfanginn í mastersnámi hennar er áfanginn reynslunám og lífsleikni, áður hefur hún tekið áfangana kennslufræði og skóli margbreytileikans auk áfangans sálgæsla og tólf spora leiðin.
Rannsóknarverkefni hennar á fjórða ári í félagsráðgjöf var stuðningur við börn með ADHD í framhaldsskóla. BA verkefni var um upplifun eldri borgara og öryrkja á gæludýraeign.
Dagný hefur starfað sem félagsráðgjafi hjá félagsþjónustunni í Hafnarfirði og Álftanesi, hún hefur einnig verið félagsráðgjafi á legudeild barnadeildar BUGL og móttökuteymi heimaþjónustunnar í Reykjavík. Hún var sjúkraliði í heimahjúkrun við Heilsuverndarstöð Reykjavíkur í 10 ár og vann í heimahjúkrun samhliða námi sínu í félagsráðgjöf í Garðabæ og Hafnarfirði. Áður en hún hóf nám sitt var hún matsfulltrúi í fimm ár hjá heimaþjónustu Reykjavíkurborgar. Hún hefur einnig starfað sem þjónustufulltrúi hjá Reykjavíkurborg. Frá árinu 2012 hefur hún verið félagsráðgjafi Jafnréttishúss.
Matsfulltrúi
Sem matsfulltrúi í félagslegri heimaþjónustu hjá Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar mat hún þarfir á heimaþjónustu og gerði heimaþjónustusamninga. Hún bar ábyrgð á og tryggði samræmt mat á umsóknum félagslegrar heimaþjónustu auk þess tók hún þátt í að móta faglegt verklag málaflokksins. Matsfulltrúar leitast við að mæta þörfum hvers og eins með það að markmiði að hjálpa fólki sem býr við veikindi, fötlun af ýmsum toga eða öldrun. Einnig styðja matsfulltrúar barnafjölskyldur sem búa við erfiðleika af einhverju tagi. Þjónusta félagslegrar heimaþjónustu getur meðal annars falist í félagslegum stuðningi, heimilisþrifum, innlitum, aðstoð á matartíma auk annarra verkefna.
Félagsráðgjafi legudeildar barna, BUGL
Starf hennar á legudeild barnageðdeildar fólst í meðferðarviðtölum og vinnu með aðstandendum, að greina vanda, samþætta félagsleg úrræði og miðla upplýsingum. Vandamál skjólstæðinga barnageðdeildar eru af ýmsum toga og mikilvægt er að horfa til allrar fjölskyldunnar í hverju máli. Oft eru haldnir fundir með stórfjölskyldunni í þeirri viðleitni að fá skýra mynd af vandanum eða til að upplýsa alla í fjölskyldunni um vandann og einnig til að leita leiða til að létta á álagi í fjölskyldunni. Á deildinni starfaði hún í fjölfaglegu teymi við greiningu á vanda barnanna og veitti aðstandendum viðtöl. Unnið var eftir einstaklings- og fjölskyldumiðaðri meðferðaráætlun fyrir hvert barn og fjölskyldu þess.
Félagsráðgjafi móttökuteymis heimaþjónustu Reykjavíkur
Félagsráðgjafi móttökuteymis leitar leiða, í samvinnu við hjúkrunarfræðinga og iðjuþjálfa í teyminu, að gera sem flestum fært að búa sem lengst heima þrátt fyrir veikindi, fötlun eða öldrun. Félagsráðgjafinn tekur einnig þátt í að móta faglegt verklag við mat á þörf fyrir þjónustu og veitir starfsmönnum heimaþjónustu stuðning, ráðgjöf og fræðslu varðandi móttöku umsókna, mat á þörf fyrir þjónustu og veitingu þjónustu. Í starfinu tók Dagný þátt í að þróa starf móttökuteymisins og heimaþjónustunnar og kynnti samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu fyrir öðrum stofnunum sem sinna þessum hópum. Dagný veit hvernig kerfið virkar og getur aðstoðað fólk að sækja um heimaþjónustu og verið til halds og trausts á fundum og í viðtölum.
Félagsráðgjafi hjá Félagsþjónustu Hafnarfjarðar
Hjá Félagsþjónustu Hafnarfjarðar var hún með málefni aldraðra og fatlaðra. Stór hluti starfsins var að veita félagslega liðveislu, þróa hana og koma á nýrri þjónustu við ungmenni sem þurftu á félagslegri aðstoð að halda. Hún sinnti einnig allri annarri félagslegri ráðgjöf svo sem varðandi húsnæðismál, húsaleigubætur svo og framfærslu auk þess að leysa af fulltrúa félagslegrar heimaþjónustu.
Félagsráðgjafi hjá Félagsþjónustu Álftaness
Sem félagsráðgjafi hjá Félagsþjónustu Álftaness sinnti Dagný öllum störfum félagsráðgjafar þar með talið barnavernd og stuðningsviðtölum.
Félagsráðgjafi Jafnréttishúss
Dagný er félagsráðgjafi Jafnréttishúss ásamt því að kenna innflytjendum íslensku. Markmið Jafnréttishúss er að aðstoða innflytjendur við aðlögun að íslensku samfélagi og stuðla að virkum samskiptum á milli Íslendinga og innflytjenda. Jafnréttishús vill stuðla að skilningi á milli ólíkra menningarheima og vinna gegn fordómum. Jafnréttishús er með íslensku- og lífsleiknikennslu, samfélagsnámskeið og ýmsa viðburði. Einnig eru í boði upplýsingar og ráðgjöf fyrir Íslendinga og innflytjendur. Jafnréttishús er með túlkaþjónustu og eitt af hlutverkum Dagnýjar er að kenna faglega túlkun og veita túlkum stuðning og handleiðslu.
Dagný tekur þátt í samstarfverkefnum Jafnréttishúss við Nordplus og Grundtvig.