„Gaman, sterk saman“
Námskeið fyrir einhleypar mæður og börn þeirra.
Hópastarf er tilvalin leið til að fá stuðning, skapa tilfinninguna að tilheyra, deila erfiðleikum, hjálpa öðrum og fá tækifæri til að hafa gaman saman. Þeir sem ná að fullnægja þessum þörfum eru líklegri til að líða almennt betur, þroska félagslega færni og þrífast betur. Hópastarf býður upp á umræðu og virkni sem aukið getur sjálfsvirðingu og hæfni í samskiptum.
Markmið námskeiðsins „Gaman, sterk saman“ er að rjúfa félagslega einangrun, efla tengslanet og styrkja sjáflsmynd einhleypra foreldra og barna þeirra. Í hópastarfinu gefst mæðrunum tækifæri á að hitta aðrar mæður í svipuðum sporum, læra af hvor annarri og styrkja sig í foreldrahlutverki, sem og persónulega. Með því að vinna á sama tíma með foreldri og barn skapast tækifæri til að efla samskipti í fjölskyldum, styðja við vináttutengsl barna og að efla trú þeirra á mátt sinn og megin.
Börn og ungmenni sem ná ekki að tengjast jafningjum eru í meiri áhættu varðandi lágt sjálfsmat, vanlíðan og áhyggjur. Lágt sjálfsmat eykur líkur á áhættuhegðun og því miklvægt að bjóða þeim þroskandi afþreyingu. Að vera í hóp skapar tilfinninguna að tilheyra sem er ómissandi fyrir persónulegan þroska og gefur tækifæri til að kanna, skapa, framkvæma og blómstra.
Í hópavinnunni með börnunum verður unnið eftir hugmyndafræði meðferðarvinnu með stuðningi dýra (e. animal assisted therapy) og hundar notaðir sem aðstoðarþerapistar. Dýr í meðferðarvinnu geta dregið úr kvíða, auðveldað tjáningu, verið styðjandi, aukið sjálfsmat og eflt vilja til að taka þátt í starfinu.
Fyrir hverja: Félagslega einangruð börn á aldrinum 10-11 ára og 12-13 ára og einhleypar mæður þeirra með lítið eða ekkert stuðningsnet. Æskilegt er að börnin séu í sama skólahverfi, en það er ekki nauðsynlegt, til að börnin hafi tækilfæri á að halda tengslum, sé áhugi fyrir hendi eftir að hópastarfi lýkur.
Hvar: Í Hafnarfirði og Reykjavík, eða eftir samkomulagi.
Hvenær (börn): Samkomulagsatriði með daga en annars þarf hópastarfið að vera einhverntíma á tímabilinu 14.00 til 17.00, klukkutíma í senn.
Hvenær (mæður): Miðvikudaga eða fimmtudaga milli kl. 9.30 til 11.30 eða fimmtudaga kl. 12.15 til 14.15.
Inntak hópastarfs
Í hópastarfi mæðra er fjallað um:
- Foreldra sem fyrirmynd og leiðbeinendur
- Sjálfsmynd, hegðun og líðan – samspil við umhverfi
- Færni í samskiptum – að setja mörk – og virða mörk
- Hvernig megi efla stuðningsnet foreldra og barna
- Að hefja og vera í sambandi með barn úr fyrra sambandi
- Hamingjan
- Persónulega stefnumótun – verkefni
Ávinningur:
- Tækifæri til að deila og læra af reynslu annarra, kynnast öðrum mæðrum
- Tækifæri til að styðja við vináttutengsl barns
- Þéttara stuðningsnet – minna álag
- Efld tengsl foreldra og barns – aukin foreldrafærni
- Jákvæð aðlögun barna og fullorðinna í stjúptengslum
- Bætt líðan og meira sjálfsöryggi
- Drög að framtíðarsýn
Í hópastarfi barna er m.a. fjallað um:
- Vináttu
- Ábyrgð á að eiga dýr
- Hvernig umgangast skal hunda
- Hunda og táknmál þeirra
Ávinningur:
- Þroskuð félagsleg færni
- Víkkun þægindahrings
- Myndun tengsla
- Möguleiki á að eignast félaga
- Útivist
- Eiga góðar stundir
- Búa til góðar minningar
- Bætt líðan og meira sjálfsöryggi
- Drög að framtíðarsýn
Leiðbeinandi barna: Dagný María Sigurðardóttir er félagsráðgjafi og sjúkraliði. Hún hefur starfað sem félagsráðgjafi hjá félagsþjónustum, BUGL og í móttökuteymi heimaþjónustunnar í Reykjavík. Dagný er félagsráðgjafi Jafnréttishúss þar sem unnið er að því aðstoða innflytjendur við aðlögun að íslensku samfélagi og tekur þátt í samstarfsverkefnum Jafnréttishúss við Nordplus og Grundtvig. Sem sjúkraliði hefur hún unnið í heimahjúkrun, á Landspítala og verið matsfulltrúi í heimaþjónustu. Dagný er eigandi Get og skal. Heimasíða hennar er
http://getogskal.is/
Leiðbeinandi mæðra: Valgerður Halldórsdóttir er félagsráðgjafi MA, hún er einnig með starfsréttindi í kennslu – og uppeldifræði og BA próf í stjórnmálafræði. Valgerður er eigandi Vensl ehf. og
www.stjuptengsl.is
. Hún sinnir þar m.a. einstaklings, para og fjölskylduráðgjöf, hópavinnu og námskeiðaldi. Hún er aðjúnkt við HÍ. Auk mikillar reynslu af félagsráðgjöf hefur hún langa kennslureynslu í framhaldsskólum og kvöldskóla FB og HÍ. Hún hefur einnig starfað sem skólafélagsráðgjafi. Valgerður hlaut hefur fengið styrki frá Lýðheilsstöð fyrir verkefnum um „Tengslanet foreldra“.