Morgunblaðið 7.9.2010
Gæludýraeign og lífsgæði
Með þessari grein langar mig að vekja athygli á því hvernig dýr geta haft áhrif á lífsgæði fólks. Áhugi á áhrifum dýra á heilsu fólks hefur aukist mikið síðustu áratugi og víða um heim hafa verið gerðar rannsóknir sem sýnt hafa fram á jákvæð áhrif dýra á heilsu og vellíðan fólks. Rannsóknir hafa leitt til þess að erlendis hafa verið skipulagðar heimsóknir gæludýra á sjúkrahús og stofnanir. Florence Nightingale, sem var brautryðjandi í hjúkrun, taldi að dýr væru góðir félagar fyrir sjúka og þá sérstaklega langveika. Aftur á móti voru það dýralæknar sem fyrstir fagstétta hófu að rannsaka áhrif dýra á fólk (Human Animal Bond) og smám saman jókst áhugi annarra stétta. Hér á landi höfðu áhrif gæludýra á líðan eigenda ekki verið rannsökuð þar til ég valdi þetta efni í BA-ritgerð mína í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands vorið 2007. Til að takmarka umfang rannsóknarinnar beindi ég athygli minni að eldri borgurum og öryrkjum í stað þess að fjalla almennt um upplifun fólks á gæludýraeign. Árið 2002 var svipað málefni tekið fyrir en þá voru áhrif heimsóknarhunda sem komu í heimsókn á öldrunardeild ásamt eigendum sínum rannsökuð.
Hér á landi voru árið 2007 rúmlega 27.000 einstaklingar sem þáðu ellilífeyri og öryrkjar töldust vera tæplega 14.000. Á næstu árum mun fjölga mjög í þessum hópum, til að mynda gerir mannfjöldaspá ráð fyrir því að árið 2020 verði fjöldi ellilífeyrisþega kominn upp í tæplega 46.000 (Hagstofa Íslands). Einstaklingar innan þessara hópa eru gjarnan mikið einir og heimsóknir oft á tíðum sjaldgæfar. Það má því gera ráð fyrir að innan þeirra upplifi margir einmanaleika. Það er því full þörf á því að leita leiða til að efla lífsgæði þessara hópa.
Kenningin um tengsl dýra og fólks (Human-Animal Bond) hefur sýnt fram á heilsueflandi áhrif dýra. Kenningin snýr að hópum með sérþarfir, svo sem öldruðum og fötluðum, þar sem þessir hópar geta átt dýrmæt samskipti við dýr. Þessi hagur getur verið sérstaklega mikilvægur fyrir einstaklinga sem hafa takmarkaða getu til félagslegra samskipta
Rannsóknir hafa sýnt að gæludýraeign, einkanlega hunda- og kattareign, getur haft jákvæð áhrif á líðan eldri borgara og þá sérstaklega þeirra sem búa einir. Rannsóknir hafa einnig sýnt að gæludýraeigendur upplifa meiri lífsfyllingu og öryggi en þeir sem ekki eiga gæludýr. Einstaklingar fá vinskap, líkamlega snertingu og áhuga frá dýrum án nokkurra skilyrða. Gæludýraeigendur fá félagsskap af dýrum sínum sem getur leitt til betri heilsu, auk þess gefa rannsóknir það til kynna að þeir sem eiga gæludýr fari sjaldnar til læknis. Svo virðist sem gæludýraeign geti fullnægt þörfum fyrir félagsskap og tíðni læknisheimsókna eykst ekki eins hjá gæludýraeigendum þótt álag aukist í lífi þeirra. Tilfinningaleg og líkamleg vellíðan eykst, auk þess eflast samskipti við aðra og það dregur úr einmanaleika. Gæludýr geta einnig gefið mikilvægan stuðning og hlýju þeim sem gengið hafa í gegnum erfiðleika svo sem skilnað eða dauðsfall maka.
Í rannsókn minni ræddi ég við sex einstaklinga, af þeim bjuggu fimm í fjölbýli. Hjá öllum viðmælendum mínum komu fram sterk tengsl á milli manneskju og dýrs. Allir þátttakendur rannsóknarinnar töluðu um að gæludýr þeirra drægju úr einmanaleika og ykju vellíðan. Þetta er í samræmi við niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið erlendis um að félagsskapur við gæludýr dragi úr einmanaleika og auki vellíðan í gegnum lífið.
Það var mat viðmælenda minna að gæludýr gæfu þeim mikið félagslega, dýrin væru félagar. Að auki opnar það tækifæri til félagslegra samskipta að vera með hund á almannafæri. Rannsóknin gefur vísbendingu um að gæludýraeign dragi úr félagslegri einangrun og auki félagsleg samskipti fólks. Rannsókn mín bendir einnig til þess að almenningur sé sáttari við gæludýrahald í þéttbýli en reglur gefa í skyn þar sem nágrannar tóku dýrhaldinu vel.
Höfundur er félagsráðgjafi.