Álag vegna dyslexiu

Námserfiðleikar geta komið niður á sjálfstrausti, leitt til kvíða og vanlíðunar og félagslegra erfiðleika. Það er því mikilvægt að greina námsvanda snemma svo hægt sé að taka upp sérhæfða meðferð. Stuðningur og skilningur hefur mikið að segja, þar sem slíkt byggir upp sjálfstraust, bætir líðan og er hvetjandi.

Mikið álag hvílir á fjölskyldum barna með dyslexiu. Miklu meiri tími fer í að kenna þeim lestur og mikla þolinmæði þarf bæði af hendi foreldris og barns. Þegar komið er í 7. bekk á kennarinn orðið erfitt með að finna bækur sem barnið hefur áhuga á að lesa því lestrarkennslubækur er miðaðar við miklu yngri aldurshóp.
Einstaklingur með dyslexíu eða sértæka lesröskun og aðrar sértækar þroskaraskanir eru í meiri áhættu um alls kyns áhættuhegðun miðað við þá sem ekki eiga við námserfiðleika að stríða. Þetta á við um þá sem flosna úr skóla. Það er þess vegna mjög mikilvægt að hvetja nemendur með sértækar þroskaraskanir á námshæfni til að ljúka framhaldsnámi. Í framhaldsnámi umgangast þau jafningja sína og fá þar með mikilvægt tækifæri á að þroska félagsfærni sína.

Skilningsleysi
Mikið skilningsleysi er varðandi leserfiðleika. Til að mynda þurfa fermingarbörn að lesa og leysa verkefni. Þessi hluti fermingarfræðslunnar getur verið lesblindum erfiður. Börn með lesblindu eiga mjög erfitt með að læra texta utanbókar, þau eiga til dæmis mjög erfitt með að læra ljóð. Skólinn sýnir þessum börnum meiri skilning en kirkjan. Greinarhöfundur veit til þess að lesblind börn hafi ekki viljað láta ferma sig og borið við áhugaleysi. Sá grunur læðist að hvort ástæðan sé ótti við meira lesefni en það sem þau þurfa að komast yfir í skólanum.
Að eiga erfitt með lestur er gríðarleg fötlun. Allt nám byggist á lestri. Sem betur fer eru flestir í skólakerfinu komnir með skilning á vanda þessarra einstaklinga.

UA-53057823-1