Get og skal sérhæfir sig í tengslum á milli fólks og dýra og þau höfð til aðstoðar í viðtölum. Get og skal býður aðstoð m.a. við að vinna á vanlíðan, kvíða, sorg, áföllum og missi. Get og skal býður einnig upp á stuðningsviðtöl vegna barna og hópastarf fyrir börn, þ.s. þau fá tækifæri á að mynda tengsl sín á milli, víkka þægindahring sinn og þroska félagsfærni sína. Leitast er við að hafa starfið fjölbreytt með útivist og hreyfingu
Get og skal veitir gæludýraeigendum aðstoð þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir um meðferð og umönnun gæludýra auk sorgar- og missiráðgjafar. Oft á tíðum fá gæludýraeigendur ekki skilning á sorg sinni við fráfall gæludýra sinna og þeim tengslum sem myndast hafa á milli þeirra og gæludýrsins. Þeir fá jafnvel ekki tækifæri á að syrgja eins og eðlilegt er að gera eftir að hafa misst einhvern náinn. Við fráfall dýranna upplifa sumir jafnvel að lítið sé gert úr sorg þeirra.
Meðferðarvinna með aðstoð dýra
Meðferðarvinna með aðstoð dýra er formleg aðferð þ.s. gerð er krafa um að sá sem leiðir starfið hafi viðeigandi þjálfun og starfsréttindi. Aðferðinni er beitt þegar ná á ákveðnu markmiði. Markmiðið m.þ.a. hafa dýr með í meðferðarvinnu er að auka árangur meðferðar. Dýrið er hugsað sem aðstoðarþerapisti. T.d. þegar hundur tekur á móti skjólstæðingi og veitir uppörvandi athygli á þann hátt getur hann dregið úr spennu og jafnað andrúmsloftið.
Fólk leitar til félagsráðgjafa til að fá stuðning og aðstoð við að vinna úr vanda sínum, s.s. vegna kvíða eða annarrar vanlíðunar. Oft á tíðum kemur það eftir erfiða lífsreynslu eða áföll sem erfitt getur verið að tala um. Dýr gera fólki auðveldara að tjá sig og þau geta dregið úr niðurdrepandi hugsunum og tilfinningum og jafnframt verið styðjandi og gefið von. Þau mynda þægilegan, álagslausan, róandi og afslappandi anda. Dýr geta verið fyrirmyndir í jákvæðri hegðun.
Talið er að þau geti veitt fólki, sem er kvíðið meðferð stuðning. Í viðtölum mynda þau nokkurs konar brú á milli félagsráðgjafa og skjólstæðings og verða til þess að það dregur úr kvíða og ótta o.þ.m. auðvelda dýrin fólki að tjá tilfinningar sínar, auk þess að vera styðjandi. Tengslin sem myndast á milli fólks og dýra geta dregið hlédrægan einstakling úr skel sinni og veitt fólki tilfinningalegan stuðning.
Meðferðarvinna með aðstoð dýra er notuð m.a. til að:
- Efla líkamlega getu og þol
- Efla líkamlega færni
- Efla áhuga á þátttöku
- Efla sjálfstraust
- Efla samskiptahæfni
- Auka samskipti af ýmsu tagi
- Bæta andlega heilsu
- Draga úr kvíða
- Draga úr einmanaleika
Fólk fær vinskap, líkamlega snertingu og áhuga frá dýrum án nokkurra skilyrða. Gæludýraeigendur geta upplifað meiri lífsfyllingu og öryggi en þeir sem ekki eiga gæludýr, þ.s. þeir fá félagsskap af dýrum sínum sem getur leitt til betri heilsu.
Dagný María Sigurðardóttir félagsráðgjafi, Get og skal. Sími: 7740900. Heimasíða: getogskal.is, póstfang: getogskal@gmail.com.