Félagsráðgjöf

Félagsráðgjöf er nám á háskólastigi, starfsheitið er lögverndað. Enginn má kalla sig félagsráðgjafa, nema sá sem hefur öðlast leyfi til þess. Heilbrigðisráðuneytið veitir leyfið. Félagsráðgjafar starfa í samræmi við lög 1990 nr. 95 28. september/ Lög um félagsráðgjöf

Félagsráðgjafar sinna ráðgjöf í félagslegum og persónulegum málum og byggja á hugmyndafræði félagsvísinda þar sem mannúð og félagslegt réttlæti er haft að leiðarljósi. Að efla velferð einstaklingsins og aðstoða hann við að fá grundvallarþjónustu er eitt af aðalverkefnum félagsráðgjafa. Félagsráðgjafar vinna að því að auka trú fólks á getu sína til að takast á við vanda sinn og nýta hæfileika sína til fullnustu. Félagsráðgjafar greina styrk og seiglu fólks.

Félagsráðgjafar eru næmir fyrir menningarlegri og þjóðlegri fjölbreyttni og berjast gegn mismunun, kúgun, fátækt og annarri gerð félagslegrar mismununar. Þetta er starfsgrein sem starfar mikið með fátækum og þeim sem minna mega sín.

Sem félagslegir umbótasinnar sjá félagsráðgjafar rót vandans, þeir vilja draga úr ójöfnuði og berjast fyrir stefnubreytingu til að gefa öllum tækifæri. Félagsráðgjafar vinna að því að styrkja einstaklinginn.

Heildarsýn félagsráðgjafar

Félagsráðgjafar hafa heildarsýn að leiðaraljósi í störfum sínum,  samkvæmt henni þroskast fólk alla ævi. Einstaklingurinn er skoðaður í samhengi við umhverfi sitt, þar sem umhverfi og þættir sem snerta félagslega og menningarlega þætti eru mikilvægir í að móta hegðun og þroska.

Sálfélagslegir þættir og líffræðilegir eru hafðir til hliðsjónar í vinnu félagsráðgjafa auk þess að vera styðjandi í meðferð. Unnið er að því að styrkja og byggja upp einstaklinginn og athyglinni er beint að því að efla sterkar hliðar einstaklingsins til að draga úr vanda hans. Félagsráðgjafar beita lausnarmiðaðri nálgun og hugað er að meðvituðum hugsunum og tilfinningum og stefnan sett á að finna lausnir á vandamálum.

Hlutverk félagsráðgjafa

Nú til dags þarf oft að kljást við margar og ólíkar stofnanir sem getur verið mjög flókið og kerfið oft illskyljanlegt, það getur þess vegna verið nauðsynlegt að hafa einhvern sér til aðstoðar.

Hlutverk félagsráðgjafa er að aðstoða við að greiða úr vanda, veita upplýsingar um réttindi, styðja í erfiðleikum, útskýra flækjur sem vefjast fyrir fólki og tryggja að þörfum fólks sé mætt.

Félagsráðgjafar tryggja velferð, vinna með fólk í krísum og veita einstaklingum, fjölskyldum og samfélögum ráðgjöf. Félagsráðgjafar vinna að því, að fólk fái þá aðstoð sem það þarf og bestu úrræði. Þetta hafa félagsráðgjafar gert í meira en 100 ár þar sem félagsráðgjöf kom fram sem sérhæfð fræðigrein á 20. öld.

Vinnulag í félagsráðgjöf

Algengasta vinnuaðferðin í félagsráðgjöf eru viðtöl, bæði einstaklings og hópaviðtöl. Hópastarf er einnig algengt. Vinnulagið er breytilegt eftir eðli mála.

Vandi skjólstæðinga félagsráðgjafa

Félagsráðgjafar annast alla aldurshópa. Þeir vinna með fjölskylduvanda, vanda vegna barna, andleg sem líkamleg veikindi, áfallahjálp, fátækt, mismunun, ofbeldi, fíkn, atvinnuleysi, missi. Þeir veita fólki stuðning við að sigrast á erfiðleikum.

 

 

 

 

UA-53057823-1