Að takast á við dauða gæludýrs
Gæludýr geta auðgað líf okkar, þau veita félagsskap, tilfinningalegan og félagslegan stuðning og þar að auki skilyrðislausa ást. Þess vegna getur fólk orðið fyrir miklu áfalli við dauða dýranna þar sem flestir bera sterkar tilfinningar til þeirra og það er því eðlilegt að fyllast djúpri sorg og vanlíðan þegar þau hverfa úr þessu lífi.
Það er ekki til nein rétt aðferð við að syrgja en það eru til leiðir við að takast á við sorg. Sumir skilja ekki þessar sterku tilfinningar sem flestir bera til gæludýra sinna og það á ekki að skammast sín fyrir þær né vera með samviskubit vegna sorgarinnar sem fylgir því að missa einhvern sem er kær. Leiðin til að vinna á sársaukanum er að sætta sig við tilfinningar sínar og að takast á við þær.
Flestum finnst hundur þeirra eða kisa ekki vera bara hundur eða kisa. Þau eru hluti af fjölskyldunni og þegar þau deyja þá verður fólk fyrir verulegu áfalli og yfirþyrmandi sorg. Hversu djúp sorgin verður fer eftir aldri eigandans og gæludýrsins, persónuleika og kringumstæðum við dauða dýrsins.
Sorgin getur tengst hlutverki dýrsins í lífi viðkomandi. Til dæmis gæti dýrið hafa verið hjálpardýr og þá er ekki eingöngu verið að missa félaga heldur einnig hluta af sjálfstæði sínu. Þeir sem hafa sinnt gæludýri í gegnum veikindi þess, hafa líklega enn meiri væntumhyggju til dýrsins. Fólk sem býr eitt, og haft dýrið jafnvel sem sinn eina félaga, eiga enn erfiðara með missinn. Og þeir sem ekki hafa haft efni á dýrri meðferð til að lengja líf dýrsins eða jafnvel lækna það, þjást oft sektarkennd og vanlíðan eftir dauða þess.
Engin syrgir eins
Engin upplifir sorgina eins. Að jafnaði kemur sorgin í þrepum, í fyrstu getur fólk átt erfitt með að trúa eða vill ekki trúa því sem gerst hefur og verður dofið. Á næsta stigi kemur fram reiði og söknuður sem síðan þróast í örvæntingu og jafnvel þunglyndi að lokum sættir einstaklingurinn sig við sorgina og enduruppbygging hefst.
Hjá öðrum er sorgin meira hringtengd, hún kemur í bylgjum. Í fyrstu eru bylgjurnar djúpar og standa yfir í langan tíma en smátt og smátt fækkar þeim og tilfinningarnar verða ekki eins miklar. Samt, jafnvel mörgum árum seinna, getur alltaf eitthvað kallað fram sorgina.
- Sorgarferlið gerist smátt og smátt. Það er ekki hægt að þvinga sorgina eða flýta henni, það er ekki til nein ákveðin tímalengd sem er eðlileg fyrir fólk að syrgja. Sumum fer að líða betur eftir nokkrar vikur eða mánuði, hjá öðrum getur ferlið staðið yfir árum saman. Það er mikilvægt að sýna þolinmæði og leifa sorgarferlinu að eiga sinn gang.
- Að upplifa depurð, ótta eða einmanaleika eru eðlileg viðbrögð við gæludýramissi. Að sýna þessar tilfinningar sýnir ekki veikleika og er ekkert að skammast sín fyrir.
- Að reyna að útiloka sársaukann eða að halda honum leyndum gerir hlutina til lengri tíma erfiðari. Til að komast yfir sorg er mikilvægt að takast á við sorgina. Með því að tjá sig um hana má gera ráð fyrir að það taki styttri tíma að ná sér heldur en þegar reynt er að dylja tilfinningar sínar. Gott er að skrifa um hvernig manni líður og tala um tilfinningar sínar við aðra.
Að takast á við gæludýramissi á meðan gert er lítið úr missi þínum
Það viðurkenna ekki allir sorg gæludýraeigenda. Vinir og fjölskylda segja jafnvel „Hva þetta var nú bara hundur“. Sumir telja, að það að missa gæludýr sé ekki eins sárt eins og að missa manneskju eða að það eigi ekki við að syrgja dýr. Stundum er ekki skilningur hjá fólki vegna þess að kannski hefur það ekki átt gæludýr eða ekki kunnað að meta þann félagsskap og þá ást sem dýr geta veitt.
- Ekki rökræða við aðra hvort sorg þín sé viðeigandi eða ekki.
- Kannski kemur besti stuðningurinn frá einhverjum utanaðkomandi en ekki frá nánustu vinum eða fjölskyldu.
- Leitaðu eftir samskiptum við þá sem misst hafa gæludýr og til þeirra sem skilja sorgina og geta veitt stuðning í sorginni.
Ábendingar til að takast á við gæludýramissi
Hryggð og sorg eru eðlileg viðbrögð við dauða. Þegar tekist er á við sorg er tíminn eingöngu það sem hjálpar, hvort sem um látna manneskju er um að ræða eða dauði gæludýrs sem hefur verið góður félagi. Það eru til leiðir til að takast á við sorg og hér eru nokkrar hugmyndir:
- Ekki láta aðra segja þér, hvernig þér líður. Sorgin er þín og engin annar getur sagt þér hvenær best er að halda áfram eða hvernig komast skal yfir hana. Ekki skammast þín fyrir tilfinningar þínar eða dómgreind. Það er í lagi að vera reiður, gráta eða ekki gráta. Það er í lagi að hlægja og að finna til gleði. Haltu áfram þegar þú ert tilbúinn.
- Ef ekki fæst stuðningur hjá vinum og fjölskyldu leitaðu þá eftir stuðningi hjá þerapista eða hjá þeim sem upplifað hafa gæludýramissi.
- Helgiathöfn getur hjálpað. Jarðarför getur hjálpað til við að tjá tilfinningar opinskátt. Hunsaðu fólk sem telur jarðarför fyrir gæludýr óviðeigandi og gerðu það sem þér finnst hennta þér best.
- Búðu til arfleifð (legacy). Gerðu minnismerki, plantaðu tré í minningu dýrsins þíns. Útbúðu myndaalbúm eða klippibók eða annað til að deila góðum minningum og til að halda á lofti góðum stundum sem þú áttir með dýrinu.
- Hugsaðu um sjálfan þig. Álagið við að missa gæludýr getur verið gríðarlegt og valdið orkuleysi og miklu tilfinningalegu álagi. Það hjálpar við að komast yfir áfallið að huga vel að líkamlegri og tilfinningalegri heilsu. Borðaðu hollan mat, sofðu nóg og stundaðu reglulega hreyfingu til þess að efla endorfínframleiðslu líkamans og auka vellíðan.
- Haltu áfram að lifa. Eftirlifandi gæludýr geta líka syrgt eða fundið fyrir vanlíðan vegna sorgar þinnar. Viðhaltu daglegum venjum, auktu jafnvel hreyfingu og finndu þér eitthvað áhugamál. Þetta mun ekki eingöngu hafa jákvæð áhrif á eftirlifandi gæludýr heldur einnig hjálpa til við að lyfta þér upp.