Börn sem alist hafa upp hjá foreldrum sem hafa átt erfitt með að veita þeim viðeigandi örvun og athygli svo og að sinna þeirra líkamlegu og andlegu þörfum eiga á hættu, að búa við tilfinningalegan vanda seinna meir á lífsleiðinni. Oft á tíðum eru þetta foreldrar sem eru með geðrænanan vanda svo sem þunglyndi eða í neyslu.
Foreldar í neyslu eiga erfitt með að sinna uppeldishlutverki sínu á fullnægjandi hátt, það er því hætt við að börn þeirra beri afleiðingar þess út í lífið. 12 sporin hafa hjálpað mörgum sem hafa verið í neyslu að takast á við lífið. Þess vegna er áhugavert að velta því fyrir sér hvort hægt sé að tengja 12 sporin og verklag í þeim við að hjálpa fólki sem á við vanlíðan að stríða þótt það hafi ekki verið í neyslu. Hér er markmiðið að skoða hvort og þá hvernig hægt sé að efla lífsgæði fólks sem alist hefur upp í veikum fjölskyldum hvort sem um er að ræða alkhólistafjölskyldu eða ekki.
Fullorðin börn alkhólista þjást oft af vonleysi, sektarkennd, neikvæðri hugsun, lágu sjálfsmati og kvíða, þeir dæma sig og aðra, búa við vanmátt á getu sinni og níða sig niður. Þetta eru svipuð einkenni og hjá einstaklingum sem ekki hafa fengið fullnægjandi umönnun í æsku. Þeir eiga, eins og fullorðin börn alkhólista, oft í tilfinningalegum erfiðleikum, eru fullir kvíða, tortryggni, óöryggi, sektarkennd, einangraðir og hafa vantrú á getu sinni. Sýnt hefur verið fram á að erfið reynsla í æsku, svo sem vanrækslu getur gert fólk viðkvæmara fyrir þunglyndi.
Þegar barn fær viðeigandi uppeldi lærir það að vera virkt og lipurt í samskiptum, það lærir sjálfstæði og að hafa trú á getu sinni og er að jafnaði vel liðið af öðrum samborgurum sínum. Þegar eitthvað misferst í uppeldi barna þá er hætta á að til verði einstaklingur sem er bældur og vansæll auk þess má vænta þess að einstaklingar sem ekki hafa fengið uppeldi við hæfi vantreysti öðrum, hafi litla trú á getu sinni og eigi í erfiðleikum í félagslegum samskiptum.
Hugræn atferlismeðferð hefur verið notuð í tengslum við ýmsan heilsuvanda hjá fólki, einkum þunglyndi og kvíða. Sýnt hefur verið fram á að hugræn atferlismeðferð sé gagnleg þegar unnið er með þunglyndi og við að viðhalda bata í þunglyndi.
Þegar hugræn atferlismeðferð er borin saman við 12 spora kerfið má sjá hve lík þessi kerfi eru. Í báðum kerfunum er verið að hugleiða og rýna í sjálfan sig og meta hverjir eru kostir og gallar hvers og eins. Hugræn atferlismeðferð leggur áherslu á að setja sér markmið og finna leiðir til að takast á við vandann og breyta hegðun. Nákvæmlega eins og í 12 sporunum þar sem talað er um að taka ákvörðun um að lifa öðruvísi.
Hjá fólki sem þjáist af þunglyndi er algengt að hugsunarháttur þeirra sé bjagaður. Það tekur frekar eftir neikvæðum hlutum og túlkar oft hlutina neikvætt. Oft er fólk með hugsanaskekkjur og það er því mikilvægt er að greina hugsunarhátt sinn og skoða hvaða hugsanskekkjur séu í gangi. Gott er að gera sér grein fyrir því að það geta komið upp vandamál þegar unnið er með hugsanir og þá er gott að vera viðbúinn og með lausnir.
Í hugrænni atferlismeðferð er áhersla lögð á að skrá hugsanir sínar og eiga þær á prenti til að auðveldara sé að meta þær. Staldra þarf við og skoða, meta og hrekja hugsanir sínar og svara eins mörgum hugsunum og hægt er daglega. Með því að skrifa hugsanirnar niður skapast fjarlægð á milli þeirra og einstaklingsins og að lokum er hægt að svara þeim um leið og þær skjóta upp kollinum. Þetta er ekki ósvipað 12 sporunum, í báðum kerfunum á að þekkja tilfinningar sínar og hugsanir og finna leiðir til að breyta neikvæðum hugsunarhætti. Í fjórða spori 12 spora kerfisins þarf hver og einn að skoða sjálfan sig og þekkja tilfinningar sínar, með því móti fær einstaklingurinn betri skilning á lífi sínu og sjálfsmyndin styrkist og klyfjar smánar og sektar dvína.
Bæði kerfin byggjast á að skrá niður hugsanir sínar en auk þess hafa 12 sporin máttinn eða bænina að tala við hann eða biðja hvort sem það er gert upphátt eða í hljóði. Ætla má að þetta sé svipað og að skrá niður hugsanir sínar og vangaveltur. Þegar skráð er, þarf að velta fyrir sér hugsunum sínum og tilfinningum og finna svör. Aðferðirnar byggjast á sjálfsskoðun og að breyta hugsunarhætti og sætta sig við það sem ekki fæst breytt og breyta því sem hægt er að breyta. Æðruleysisbænin er notuð í báðum kerfunum.
Eftir að hafa borið hugræna atferlismeðferð saman við 12 spora kerfið er hægt að komast að þeirri niðurstöðu, þar sem að aðferðirnar eru það líkar, að hægt er að nota hugmyndafræði 12 sporanna við að vinna á vanlíðan, þunglyndi og kvíða sem eru fylgifiskar vanrækslu í æsku eins og að nota hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar. Í báðum kerfunum er unnið með að skoða sjálfan sig, hugsanir sínar og að þekkja tilfinningar sínar. Að vera sáttur og að sætta sig við það sem ekki verður breytt. Bæði kerfin tala um að löngun til að breytast þarf að vera til staðar. Helsti munurinn virðist vera að í hugrænni atferlismeðferð er ekki lögð áhersla að rifja upp lífsreynslu og áföll aftur á móti er það hluti af 12 sporunum að skoða fyrri reynslu.