Börn og dauði gæludýra

Að missa gæludýr getur verið fyrsti missir barna og fyrsta tækifæri til að kenna þeim að takast á við sorg og missi sem óhjákvæmilega fylgir því að hafa þótt vænt um einhvern. Að missa gæludýr getur verið mjög erfið reynsla. Mörg börn elska gæludýr sín mjög og geta orðið reið og ásakað sig eða foreldra sína vegna dauða þeirra. Barnið getur óttast að annað fólk eða dýr sem þau elska deyji einnig frá þeim. Hvernig tekist er á við þetta getur ákvarðað hvort þessi reynsla hafi jákvæð eða neikvæð áhrif á þroska barnsins.

Sumir foreldrar telja að þeim beri að vernda börn sín fyrir þeirri sorg að missa gæludýr með því að tala ekki um dauða dýrsins eða með því að vera ekki heiðarleg um hvað hafi gerst. Að láta sem dýrið hafi strokið að heiman eða farið að sofa til dæmis getur ruglað barnið eða gert það enn hræddara og þau talið sig svikin, þegar þau uppgötva sannleikann. Það er mun betra að vera heiðarlegur og gefa þeim tækifæri á að syrgja á sinn hátt.

Ábendingar til að hjálpa börnum við að takast á við gæludýramissi

  • Leyfðu barninu að sjá að þú syrgir dýrið. Ef þú upplifir ekki sorg á sama stigi og barnið, þá skaltu bera virðingu fyrir sorg þess og leifa því að tjá tilfinningar sínar án þess að það þurfi að skammast sín eða að finna til sektarkenndar. Börn eiga að fá að vera stolt yfir því að hafa þetta miklar kenndir og tilfinningar til kærs félaga sem fallinn er frá.
  • Fullvissaðu barnið um að það hafi ekki borið ábyrgð á dauða gæludýrsins. Dauði þess getur kallað fram margar spurningar og ótta hjá barni. Það gæti verið þörf á að ítreka fyrir því að fleiri sem þeim þykir vænt um, eru ekki deyjandi. Það er mikilvægt að tala um tilfinningar þess og það sem því liggur á hjarta.
  • Leifðu barninu að taka þátt í dánarferlinu. Ef það hefur verið valið að svæfa dýrið þá er best að vera heiðarlegur og segja barninu það. Það þarf að útskýra hvers vegna það er nauðsynlegt og gefa því tækifæri á að kveðja á sinn hátt.
  • Ef það er mögulegt, þá skal gefa barninu tækifæri á að búa til eitthvað til minningar um gæludýrið. Þetta getur verið mynd, loppufar úr bleki eða gifsi til að mynda.
  • Leifðu barninu að taka þátt í minningarathöfn ef þau óska þess. Jarðarför eða minningarathöfn fyrir dýrið getur hjálpað barni að tjá tilfinningar sínar og stutt það í sorgarferlinu.
  • Ekki hlaupa til og fá annað dýr í stað þess sem farið er, áður en barnið hefur fengið tækifæri á að syrgja. Barninu gæti fundist það vera svik í garð þess dána. Auk þess að með því móti getur barninu verið send þau skilaboð að þegar einhver deyr er einfaldlega hægt sé að kaupa sig frá sorg og söknuði.
UA-53057823-1