Virkni með hjálp dýra (e. Animal Assisted Activity)
Virkni með hjálp dýra, oft á tíðum heimsóknir dýra, veitir tækifæri til meiri virkni, fræðslu um dýr, afþreyingar og til eflingar á lífsgæðum og heilsu. Starfið byggist á samskiptum við dýr, þar sem tækifæri gefst á að njóta samvista við dýr með skemmtilegri virkni. Ekki er gerð krafa um fagkunnáttu hjá þeim er leiða starfið.
Meðferðarvinna með aðstoð dýra (e. Animal Assisted Therapy)
Meðferðarvinna með dýrum er formlegri aðferð þar sem gerð er krafa um að sá sem leiðir starfið verði að hafa viðeigandi þjálfun og starfsréttindi í meðferðarvinnu. Meðferðarvinna með dýrum er beitt til að ná ákveðnu markmiði og sem hluti af faglegri meðferðarvinnu með fagaðila. Í upphafi meðferðar er gert skriflegt markmið og í lokin er árangur metinn og skráður.
Þetta er ekki ein ákveðin tegund meðferðar. Hefðbundin meðferð er notuð og dýrið er hugsað sem aðstoðarþerapisti. Dýrin eru nokkurs konar verkfæri og notuð til að draga úr spennu. Í þessari tegund meðferðar er hægt að þjálfa andlega líðan og vinna að því að auka tiltekna hæfni svo sem að kenna snertingu sem er við hæfi, að draga úr kvíða, vinna með umhyggju, draga úr einmanaleika og efla virkni. Markmiðið með því að hafa dýr með í meðferðarvinnu er að auka árangur meðferðar.
Þerapistar sem nota dýr við vinnu sína vilja meina að skjólstæðingar þeirra eigi auðveldara með að tjá sig og hafi meira innsæi þegar dýr er með í viðtali, borið saman við viðtöl þar sem dýr er ekki til staðar. Þar sem svo virðist sem nærvera dýrsins geti deyft erfiðleika skjólstæðingsins og orðið til þess að hann á auðveldara með að tjá vanda sinn. Auk þess veita dýr feimnum börnum stuðning sem eru kvíðin meðferð.
Dýr búa til þægilegan, róandi og afslappandi anda. Þau geta verið hughreystandi á erfiðum stundum og verið fyrirmyndir í jákvæðri hegðun.