Útdráttur
Gæludýr hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda en áhrif gældudýraeignar á líðan fólks hefur ekki verið mikið rannsökuð í gegnum tíðina. Á síðustu áratugum hefur áhugi á áhrifum dýra á líðan fólks aukist. Rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessu sviði benda til þess að gæludýr auka lífsgæði fólks og hafa jákvæð áhrif á andlega, líkamlega og félagslega líðan eigenda sinna. Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að notkun gæludýra í meðferðvinnu sé líkleg til að draga úr einangrun, auka félagsleg samskipti og efla lífsgæði. Þessi rannsókn er sú fyrsta sem gerð er hér á landi sem rannsakar upplifun eldri borgara og öryrkja, sem búa í eigin húsnæði, á gæludýraeign. Gerð var eigindleg rannsókn þar sem tekin voru viðtöl við sex einstaklinga. Fram komu fjögur þemu; jákvæð áhrif (sem skiptist í þrjú undirþemu), neikvæð áhrif, félagsleg samskipti og viðmót. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um að hér á landi hafi gæludýr svipuð áhrif á eigendur sína eins og erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á.
Inngangur
Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna hvort gæludýr hafi áhrif á líðan fólks. Áhugi minn beinist sérstaklega að upplifun eldri borgara og öryrkja á gæludýraeign og hvaða áhrif það telur að gæludýr hafi á andlega, líkamlega og félaglega líðan þeirra. Hugmynd að þessu verkefni kom vegna þess viðmóts sem gæludýraeigendur og þá sérstaklega þeir sem eiga hunda og/eða ketti verða stundum fyrir í samfélaginu. Segja má að flestir hafi jákvæð viðhorf til gæludýra og gæludýraeigenda en þó er til hópur fólks sem virðist nokkuð ósáttur við gæludýrahald í þéttbýli. Þetta hefur leitt til þess að reglur hafa verið settar til að takmarka gæludýraeign. Til að mynda hafa verið settar reglur í Ísafjarðarbæ þar sem katta og hundahald er bannað (Ísafjarðarbær, e.d.) og í Reykjanesbæ þar sem greiða þarf gjöld vegna kostnaðar bæjarfélagsins vegna kattarhalds (Valgerður Sigurvinsdóttir munnleg heimild, 23. mars 2007). Í Reykjavík hefur kattarhald ekki verið bannað en krafa er um að þeir séu örmerktir auk þess er hundahald ekki lengur bannað í borginni heldur eru það leyft að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (Reykjavíkurborg, e.d.).
Áhugi á áhrifum dýra á fólk hefur aukist mikið hin síðari ár og ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum sem dýr geta haft á manneskjur. Í Bandaríkjunum hafa til að mynda verið skipulagðar heimsóknir sjálfboðaliða, frá árinu 1970, á stofnanir með dýr eins og til dæmis hunda og ketti (Hines, 2003).
Þar sem einungis ein rannsókn hefur verið gerð hér á landi á áhrifum gæludýra á líðan fólks taldi ég vera ríka þörf á frekari rannsóknum á þessu sviði.
Í upphafi verkefnisins er fræðilegur hluti þar sem sagt verður frá upphafi rannsókna á sviðinu og fjallað um einn af brautryðjendum þeirra. Í kaflanum verða auk þess kynnt samtök sem helga sig að rannsóknum á áhrifum dýra á fólk og sagt frá tveimur meðferðarformum þar sem dýr koma við sögu. Greint verður frá rannsóknum og kenningum á sviðinu þar sem fjallað er um áhrif dýra á heilsu fólks. Einnig er sagt frá mikilvægi heildarsýnar í félagsráðgjöf og hversu mikilvægt það getur verið fyrir félagsráðgjafa að hafa dýr í huga í störfum sínum. Því næst er sagt frá stefnu í rekstri hjúkrunarheimila þar sem dýr gegna stóru hlutverki. Í lokinn er sagt frá notkun dýra á nokkrum stofnunum hér á landi. Í næsta hluta verkefnisins er framkvæmd rannsóknar rakin og rannsóknaraðferð og að lokum eru dregnar saman niðurstöður ásamt umræðu.
Rannsókn þessi er B.A. verkefni mitt í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og er hún unnin undir handleiðslu dr. Freydísar Jónu Freysteinsdóttur lektors í félagsráðgjöf.
Fræðilegur hluti
Margir hafa haldið fram jákvæðum áhrifum gæludýrahalds á heilsu fólks en lengi vel voru þessi áhrif ekki rannsökuð og upphafsmenn rannsóknanna urðu margir hverjir fyrir athlægi þegar þeir fjölluðu um þessi mál. Frumkvöðlar rannsóknanna voru dýralæknar en þeir voru þeir fyrstu sem greindu frá hugmyndum sínum um hag fólks af því að eiga gæludýr. Ein af fyrstu heimildunum um jákvæð áhrif gæludýra er hægt að finna í grein í tímaritinu Mental Hygiene frá árinu 1944 en það var dýralæknir Bossard að nafni sem skrifaði hana, í greininni fjallar hann um jákvæð áhrif þess að eiga hund. En jafnvel innan dýralæknisfræðinnar þóttu rannsóknir á tengslum fólks og dýra ekki mjög athyglisverðar og lengi vel var ekki mikill stuðningur við rannsóknir á þessu sviði (Hines, 2003).
Hines (2003) greinir frá því að víða erlendis hafi orðið viðhorfsbreytingar til gæludýra. Hún segir frá rannsóknum þar sem rannsökuð voru tengsl dýra við heilsu manna, þær rannsóknir sýndu jákvæð áhrif tengslanna. Niðurstöður þessara rannsókna hafa síðan leitt til þess að skipulagðar hafa verið heimsóknir gæludýra á sjúkrahús og stofnanir.
Einungis ein rannsókn hefur verið gerð hér á landi á því hvaða áhrif dýr geta haft á fólk en það er rannsókn Ingibjargar Hjaltadóttur, Ástu B. Pétursdóttur, Gerðar Sæmundsdóttur, Guðrúnar Lovísu Víkingsdóttur og Ídu Atladóttur (2002). Tilgangur þeirrar rannsóknar var að kanna áhrif heimsóknarhunda og eigenda þeirra á líðan heilabilaðra sjúklinga á öldrunarsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss. Í rannsókninni kom fram að samskipti sjúklinganna við hundana létti á einangrun þeirra og þeir tjáðu sig við hundana og aðra sem í kringum þá voru og í mörgum tilfellum náðist gott samband á milli fólks og hunds.
Þann 12. september árið 2001 var komið með leitar og björgunarhund til dýralæknis, eftir að hann hafði verið við leitar og björgunarstörf við World Trade Center byggingarnar. Á dýralæknastofunni var starfsmaður sem mikið hafði stundað rannsóknir á tengslum fólks og dýra og vissi því vel hve sterk tengsl geta myndast á milli þeirra. Þegar starfsmaðurinn athugaði ástand hundsins seinna um daginn kom það honum samt á óvart hin mikla umhyggja sem hundurinn fékk frá félaga sínum. Í búrinu hjá honum svaf félagi hans, slökkviliðsmaðurinn, í fullum skrúða með hönd sína yfir hundinum. Þessi sýn snart starfsmanninn mikið, en á sama tíma gerði hann sér grein fyrir því að slökkviliðsmaðurinn þurfti alveg eins á samverunni að halda eins og hundurinn (Bovsun, 2006).
Delta samtökin (Delta Society)
Einn af brautryðjendum rannsókna á áhrifum dýra á manneskjur var doktor Leo K. Bustad. Bustad var með doktorsgráðu í dýralækningum og í sálfræði (Delta Society, e.d.a). Hann notaði áhrif sín í Wasington State University, þar sem hann var deildarforseti í áratug, til að koma á áföngum þar sem fjallað var um þessi mál. Þrátt fyrir að margir innan dýralæknisfræðinnar töldu þetta ekki eiga heima innan deildarinnar (Hines, 2003). Hann var einn af stofnendum samtaka þar sem áhrif dýra á fólk eru rannsökuð, samtökin kallast Delta Society. Samtökin vilja efla vitneskju um þau áhrif sem dýr geta haft á heilsu og þroska fólks. Þar af leiðandi vilja samtökin draga úr hömlum sem settar eru á þátttöku dýra í hinu daglega lífi (Delta Society, e.d.b). Delta Society eru mjög virt alþjóðleg samtök þar sem hægt er að fá áreiðanlegar upplýsingar á málefnum þessum (Björn Styrmir Árnason munnleg heimild, 2. mars 2007).
Það var á áttunda og níunda áratugnum sem athygli manna fór að beinast að tengslum fólks og dýra. Til að mynda var þá farið að nota hunda við að aðstoða fatlaða. Framfarir á þessu sviði má rekja til dýralækna en aðrar fagstéttir voru seinni að sjá gildi tengslanna á milli þessara tveggja hópa (Hines, 2003). Á þessum tíma voru gæludýr talin munaður en alls ekki mikilvægt atriði fyrir heilsu og vellíðan einstaklingsins (Delta Society, e.d.b). Á síðustu 15 til 20 árum hefur þetta verið að breytast og fólk er farið í auknum mæli að tala um þessi tengsl. Sá fyrsti sem skrifaði um þau, Konrad Lorenz, taldi að í tengslum fólks og dýra væri ást og vinskapur eins og hún gerist tærust og göfugust (Hines, 2003). Lorenz er þekktur fyrir rannsóknir sínar á hegðun dýra (Berk, 2004).
Delta Society samtökin voru stofnuð árið 1977 með það að markmiði að bæta heilsu fólks með þjónustu og beitingu dýra til meðferðar (meðferðardýr). Samtökin bjóða upp á upplýsingar um þjónustuhunda og þjónustuhundaþjálfara. Þau meta einnig og skrá, fólk og dýr sem vilja taka þátt í vinnu á þessu sviði. Á heimasíðu samtakanna hefur verið safnað saman upplýsingum um rannsóknir sem gerðar hafa verið um þann ávinning sem hægt er að ná með samskiptum sínum við dýr (U.S. Department of Health & Human Services, e.d.).
Delta Society hefur skilgreint tvær gerðir meðferðarforma. Önnur nefnist meðferð með hjálp dýra, AAT (Animal Assisted Therapy) og hin virkni með hjálp dýra AAA (Animal Assisted Activities). Í meðferð með hjálp dýra (AAT) eru dýr notuð sem hluti af meðferðinni. Það er sérhæft fagfólk í heilbrigðiskerfinu sem sér um meðferðina og árangur hennar er skráður og mældur. Meðferðin er notuð þegar vinna á með ýmsa líkamlega, andlega eða félagslega þætti. Svo sem að bæta fínhreyfingar, auka þátttöku fólks í hópmeðferð, auka einbeitingu, athygli og sjálfstraust eða til að minnka kvíða og draga úr einmanaleika. Með því að nota dýr í hópmeðferðarvinnu verður meiri vilji hjá hópmeðlimum að taka þátt í hópastarfinu og samskipti innan hópsins eykst (Delta Society, e.d.c).
Virkni með hjálp dýra (AAA), er hugsuð til að auka líkamlega hreyfingu og samskipti við aðra. Til þess eru notuð sérþjálfuð dýr sem uppfylla sérstök skilyrði. Í virkni með hjálp dýra er ekki skylt að skrá og mæla árangur. Meðferðin er notuð á margvíslegan hátt við fjölbreyttar aðstæður og í misjöfnu umhverfi. Umsjónarmenn meðferðarinnar eru sérstaklega þjálfaðir sérfræðingar og sjálfboðaliðar sem sjá um starfið (Delta Society, e.d.c). Til þess að hundur fái að gerast meðferðarhundur þarf hann að hafa sérstaka hæfileika. Skoðað er hvernig hann og eigandi hans vinna saman. Auk þess er metið hvort skapgerð hundsins er hentug. Hann má ekki óttast ókunnug hljóð, né að hitta ókunnuga eða hin ýmsu hjúkrunartæki svo sem hjólastóla. Hundurinn þarf auk þess að vera heilsuhraustur, vel snyrtur og vera undir eftirliti dýralæknis (Connor og Miller, 2000).
Það eru heimildir fyrir því að samband við dýr hefur heilsufarslegan ávinning og jákvæð áhrif á baráttuvilja og sjálfsmat fólks. En það er mikil þörf á frekari rannsóknum þar sem ekki er vitað um umfang ávinningsins né hvaða áhrif gæludýraeign hefur samanborið við aðrar leiðir til að njóta lífsins (Beck og Katcher, 2003).
Rannsóknir á sviðinu
Rannsóknir hafa sýnt fram á það sem talið er að svo margir hafi vitað árum saman að það að eiga samskipti við dýr getur dregið úr einmanaleika og öðru álagi (Delta Society, e.d.e). Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að tengsl við dýr hafi jákvæð áhrif á heilsuna, siðferðisþrek og sjálfsmat (Beck o.fl., 2003).
Það eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á heilsu og líðan fólks og félagsleg samskipti eru einn af þessum þáttum. Hinar ýmsu rannsóknir hafa sýnt fram á að félagsleg samskipti eru mjög mikilvæg til að viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu. Að mati Allen geta gæludýr til að mynda eflt félagsleg samskipti því það að þurfa til dæmis að fara út að viðra hundinn getur aukið félagsleg samskipti því oft kemur einhver og spjallar, auk þess getur þetta spjall leitt til frekari vináttu (sjá í Delta Society, e.d. e).
Peretti (1990) skoðaði tengsl eldri borgara við hunda sína (Elderly-Animal Friendship Bonds). Rannsókn hans sýndi að félagsskapurinn væri helsti ávinningurinn sem dýrin gæfu eigendum sínum og 70% nefndu það að hundurinn væri þeirra eini vinur. Þeir sem bjuggu einir sögðust tala við hund sinn eins og hann væri mennskur. Auk þess töldu þau tengsl sín við hundinn vera jafn sterk og þau ættu við annað fólk. Í rannsókn hans kom einnig fram, eins og í hinni þekktu rannsókn Friedmann, Katcher, Lynch og Thomas (1980) að hundar þeirra gæfu þeim hlutverk, það þarf að sjá um þá, fæða þá, hreyfa og gæla við þá. Dýr virðast því uppfylla þörf fólks til að annast annan aðila.
Þátttakendur í rannsókn Perettis (1990) töldu tilfinningaleg bönd vera á milli sín og dýra sinna. Dýrin sýna eigendum sínum hlýju, traust og umhyggju án allra skilyrða. Þessi hlýja, traust og umhyggja fullnægir þörfum eigenda þeirra fyrir nálægð við aðra. Þátttakendurnir skýrðu frá því að hundar þeirra væru elskaðir og þeir kæmu fram við þá eins og þeir væru mannlegir. Þeir töldu sig vita hvernig hundum þeirra liði og hvað þeir hugsuðu. Einnig töldu þátttakendur mikilvægt öryggið sem hundar þeirra veittu þeim. Þeir væru síður hræddir við innbrot vegna hunda sinna. Þeir gæfu þeim einnig mikið tilfinningalega, því þátttakendur sögðu hundana oft vera sína trúnaðarvini.
Fyrir lækna, hjúkrunarfólk og félagsráðgjafa er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem gæludýr geta haft á heilsu eigenda þeirra. Til að mynda getur þörf gæludýraeigenda að sjá um gæludýr sitt seinkað innlögn á sjúkrahús en aftur á móti geta áhyggjur af velferð gæludýrsins leitt til óþarfa kvíða hjá inniliggjandi sjúklingum (Friedmann o.fl. 1980).
Í rannsókn Kitwood þar sem hann skoðar meðferð minnissjúkra með hjálp hunda kemur fram, að samskipti við hunda örvar þætti sem eru mikilvægir í tengslamyndun, einnig hefur komið fram í rannsóknum hans að nálægð við bæði dýr og fólk stuðlar að vellíðan og aukinni öryggistilfinningu (sjá í Ingibjörg Hjaltadóttir o.fl., 2002).
Gæludýr krefjast einskis í samskiptum sínum við fólk en aftur á móti eru öll samskipti sem einstaklingar eiga við aðra krefjandi og oft þarf fólk að færa ýmsar fórnir vegna þeirra. Í samskiptum gæludýra og eigenda þeirra er það oftast eigandinn sem ræður án allra skilyrða og þau geta átt sér stað án orða. Þessi þöglu samskipti geta gefið slökun sem mannleg ná ekki (Friedmann o.fl., 1980). Fleiri konur en karlar sögðust vera búnar að fá nóg af vandamálum sem tengjast samskiptum sínum við annað fólk og þær hefðu því ekki þörf á tengslum við aðra. Þær töldu hunda sína vera trygga og traustsins verða og sífellda uppsprettu ánægju í lífi sínu (Peretti, 1990).
Kenningar á sviðinu
Delta Society samtökin hafa unnið að því að skilja samskipti gæludýraeigenda og gæludýra. Doktor Bustad sökkti sér niður í rannsóknir á tengslum fólks og dýra og varð þekktur frumkvöðull í kenningunni um tengsl dýra og fólks (Human-Animal Bond) (Delta Society, e.d.b). En auk hans tengdust Konrad Lorenz og Boris Levinson kenningunni einnig (Hines, 2003).
Samkvæmt kenningunni um tengsl dýra og fólks (Human-Animal Bond) hafa ástrík samskipti við dýr heilsueflandi áhrif á fólk og auka lífsgæði (Risley-Curtiss, Holley og Wolf, 2006). Kenningin snýr sérstaklega að börnum, fötluðum, greindarskertum, föngum, öldruðum og hópum með ýmsar sérþarfir. Við gæludýr geta þessir hópar átt dýrmæt samskipti sem getur birst í snertingu, öryggi og ógagnrýnum félagsskap. Þessi hagur getur verið sérstaklega mikilvægur fyrir einstaklinga sem hafa takmarkaða getu til félagslegra samskipta (Netting, Wilson og New, 1987).
Félags-hugræna kenningin (Social Cognitive) útskýrir hvernig fólk nær og viðheldur ákveðnu hegðunarmynstri. Samkvæmt henni ráðast hegðunarbreytingar af þáttum eins og umhverfinu, mannlegum samskiptum og hegðun (University of Twente, e.d.). Margar rannsóknir styðjja félags hugrænu kenninguna (Social Cognitive) með því að sýna jákvæð áhrif félagslegra samskipta á heilsu. Dýr eru sannarlega uppspretta félagslegra samskipta sem sést á því að flestir sem eiga gæludýr telja það vera eitt af fjölskyldunni og tala við það. Sumir telja það jafnvel vera sinn trúnaðarvin. Félagsleg samskipti við annað fólk er einnig talið aukast við það að eiga dýr (Beck o.fl., 2003).
Í athafnakenningu (Activity Theory) Havighurst frá árinu 1968 segir að aldraðir eigi að taka þátt í sem flestu, ekki að draga sig í hlé. Hann taldi virkni og vellíðan haldast í hendur og koma í veg fyrir hrörnun. Að hafa eithvað daglega fyrir stafni er helsti félagslegi þátturinn sem hefur áhrif á langlífi (Kart, 1997). Gæludýr gera það að verkum að eigendur þeirra hafa hlutverki að gegna í hinu daglega lífi við að sinna þeim. Það þarf að gefa þeim, láta þau hreyfa sig, tala við þau og gæla við þau. Til að hugsa vel um gæludýr þarf að fylgja ákveðinni reglu og það er ábyrgð sem fylgir gæludýraeign. Fyrir fólk sem er ekki á vinnumarkaði geta þessi verkefni gefið því mikið (Friedmann o.fl., 1980).
Það er talið að ýmsir þættir móti einstaklinginn bæði meðfæddir þættir og umhverfislegir. Samkvæmt sálfræði sjálfsins (Ego Psychology) eru það meðfæddir þættir, samskipti og tengsl við aðra sem móta einstaklinginn auk umhverfisins og þeirra menningar sem einstaklingurinn býr í (Goldstein, 2001). Lynch greinir frá jákvæðum áhrifum félagslegra samskipta á einstaklinga. Að hans mati fæst félagslegur stuðningur af dýrum og sterk tengsl geta myndast á milli manneskju og dýrs (sjá í Beck o.fl., 2003).
Þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á gildi samskipta fólks og dýra á áhrif líkamlegrar og andlegar heilsu og velferðar, hefur ekki verið mikið unnið að því að athuga hvað gera skuli til að auka gæði samskiptanna, þessum tveimur hópum til hagsbóta (Beck o.fl., 2003).
Heildarsýn í félagsráðgjöf
Mary Richmont, ein af frumkvöðlum félagsráðgjafar, benti á að skoða ætti einstaklinginn í samhengi við fjölskyldu hans en ekki einblína á einstaklinginn einan. Að beina athyglinni eingöngu að einstaklingnum er ekki alltaf til gagns. Það eru félagsleg samskipti og umhverfið, bæði í nútíð og fortíð, sem móta einstaklinginn. Þessa sýn Mary Richmont um áhrif félagslegra tengsla og umhverfis á fólk og vanda þeirra hafa félagsráðgjafar öðrum fremur haft alla tíð í huga (Goldstein, 1996).
Gott heilsufar og vellíðan vegna félagsskapar mannsins við dýr hefur lengi verið talið eiga samleið. En það var ekki fyrr en á síðustu árum sem farið var að rannsaka þetta á vísindalegan hátt. Vitneskja um samband þetta fer vaxandi og það eru mörg sannindamerki sem bera vott um, að það eru sterk tengsl á milli fólks og dýra þeirra. Rannsóknir á þessu sviði hafa að mestu verið gerðar af sálfræðingum, læknum og dýralæknum og umfjöllunin er oft um einstaklinga sem eiga við veikindi að stríða. En félagsráðgjöf er grundvölluð á heildarsýn sem krefst þess að líta á einstaklinginn í samhengi við umhverfið og samskipti hans við aðra. Það er því mikilvægt fyrir félagsráðgjafa að gera sér grein fyrir því, hve mikil áhrif gæludýr geta haft á líf skjólstæðinga þeirra því yfir 97% gæludýraeigenda eru sammála þeirri fullyrðingu að gæludýr þeirra sé talið til fjölskyldunnar (Risley-Curtiss, Holley og Wolf, 2006).
Þar sem flestir félagsráðgjafar hafa haft einhverja skjólstæðinga sem eru mjög hændir að dýrum sínum er nauðsynlegt fyrir þá að gera sér grein fyrir því hve gæludýr geta verið mikill áhrifaþáttur í lífi skjólstæðinga þeirra. Hingað til hafa fræðimenn félagsráðgjafar lagt litla áherslu á tengsl fólks við gæludýr sín og í óbirtri rannsókn Risley-Curtiss var einungis í sjö skólum af 230, sem kenndu félagsráðgjöf, fjallað um kenninguna um tengsl dýra og fólk (Human-Animal Bond). Það er því umhugsunarefni hvort félagsráðgjafar ættu ekki að hafa það í huga hve dýr geta haft mikil áhrif á líf fólks. Því að með viðeigandi þekkingu og þjálfun eru þeir í góðri stöðu til að auðga líf fólks og gæludýra þeirra (Risley-Curtiss o.fl., 2006).
Ill meðferð á dýrum getur gefið vísbendingar um að ofbeldi eða vanræksla eigi sér jafnframt stað í fjölskyldunni og einnig er hægt að greina ofbeldishneigð hjá börnum út frá því hvernig þau koma fram við dýr. Með því að gera sér grein fyrir því að illa sé farið með gæludýr fjölskyldunnar eru meiri líkur á að aðrir annmarkar, ef einhverjir eru, greinist í fjölskyldunni. Rannsóknir á þessu sviði hafa sýnt fram á samband á milli þess að fara illa með dýr og annars ofbeldis svo sem heimilisofbeldis og misnotkunar á börnum. Það er því nauðsynlegt fyrir félagsráðgjafa sem verða varir við ofbeldi á gæludýrum að hafa það í huga að frekara ofbeldi geti átt sér stað í fjölskyldunni (Faver og Strand, 2003).
Áhrif gæludýraeignir á heilsu og líðan
Hinar ýmsu rannsóknir sem gerðar hafa verið frá árinu 1980 hafa gefið vísbendingar um að umgengni við dýr getur haft margvísleg áhrif á fólk. Rannsóknirnar hafa sýnt fram á til að mynda að góð tengsl við gæludýr getur leitt til betri andlegrar og líkamlegrar heilsu þegar félagsleg samskipti eru ófullnægjandi.
Jákvæð áhrif
Gæludýraeign virðist hafa áhrif á dánartíðni hjartasjúklinga. Því að í rannsókn Friedmanns og fleiri (1980) kom í ljós (eftir að hafa fylgst með afdrifum 93 hjartasjúklinga í eitt ár) að aðeins sex prósent af þeim sem áttu gæludýr voru látnir ári seinna en 44 prósent sem ekki áttu gæludýr. Rannsóknin sýndi einnig fram á að samskipti við dýr minnkar streituviðbrögð og að auki geta þau lækkað blóðþrýsting og hægt á hjartslætti. Beck og fleiri (2003) komust að sömu niðurstöðu og einnig Lynch en hann taldi að tengsl við dýr hafi auk þess verndandi áhrif á hjarta og æðakerfi. Auk þess telur hann að huggandi snerting geti haft svipuð áhrif (sjá í Delta Society, e.d.d). Friedmann og Thomas (1995) tengdu félagslegan stuðning og gæludýraeign, við meiri möguleika á að lifa af kransæðastíflu. Í rannsókn þeirra voru áhrif gæludýraeignar, félagslegs stuðnings, alvarleika sjúkdómsins og aðrir þættir kannaðir. Góður félagslegur stuðningur og það að eiga gæludýr hefur tilhneigingu til að segja fyrir um hvort sjúklingur lifi af kransæðastíflu óháð því hversu alvarlegt áfallið er. Hundaeigendur eru til að mynda mun líklegri til að vera enn á lífi ári eftir áfallið en þeir sem ekki eiga hunda.
Svo virðist sem það skipti máli hvernig gæludýr fólk velur sér. Siegel (1990) sýndi fram á að hundar dragi frekar úr streitu en aðrar gerðir gæludýra. Einnig töldu hundaeigendur sig eiga í öðruvísi sambandi við gæludýr sitt og í samanburði við aðra gæludýraeigendur töldu þeir sig eyða meiri tíma með því bæði innan- og utandyra. Auk þess töluðu þeir meira við það. Það að eiga samvistir við gæludýr sitt utandyra og að tala við það hefur mikla félagslega þýðingu að mati Siegel. Hundaeigendur voru að auki mun hændari að dýri sínu en aðrir gæludýraeigendur. Hundar gefa eigendum sínum einnig öryggistilfinningu. Að finna fyrir öryggi er mjög mikilvægt fyrir eldri borgara sérstaklega þá sem búa í þéttbýli. Niðurstaða rannsóknar Siegels var því sú, að með því að eldri borgarar eigi gæludýr, sérstaklega hunda, geti það dregið úr þörf þeirra að leita til læknis en auk þess gefa gögn það til kynna að gæludýr dragi úr þörf að fá aðstoð á erfiðleikatímum.
Beck og fleiri (2003) komust að sömu niðurstöðu og Siegel að gæludýraeign geti haft jákvæð áhrif á líðan eldri borgara og þá helst fyrir þá sem búa einir. Að mati þeirra upplifa gæludýraeigendur meiri lífsfyllingu og öryggi í samanburði við þá sem ekki eiga gæludýr. En þrátt fyrir þessi jákvæðu áhrif gæludýraeignar fyrir aldraða er ekki mikið um gæludýraeign í þeirra aldurshópi. Því miður eru ýmsir annmarkar fyrir eldra fólk að eiga gæludýr svo sem eins og kostnaður. Einnig þurfa þeir sem eiga til að mynda hunda að vera við þokkalega heilsu til að geta hugsað vel um þá, því þeir þurfa hreyfingu. Auk þess er algengt að mati Beck og fleiri (2003) að það séu ýmsar takmarkanir eða hömlur á gæludýraeign í því húsnæði sem aldraðir búa að jafnaði í. Líklega er hægt að mati greinarhöfundar að yfirfæra aðstæður aldraðra yfir á öryrkja.
Einstaklingar fá vinskap, líkamlega snertingu og áhuga frá dýrum án nokkurra skilyrða. Það skiptir ekki máli hvort einhver eigi erfitt með mál og hugsun eða eigi við alvarlega líkamlega fötlun að stríða þegar samskipti manneskju og dýrs eiga í hlut (Ingibjörg Hjaltadóttir o.fl., 2002). Í rannsókn Raina, Waltner-Toews, Bonnet, Woodward og Abernathy (1999) kom fram að katta- og hundaeigendur höfðu ávinning af dýraeign sinni miðað við þá sem ekki áttu dýr.
Gæludýraeign og að eiga góð tengsl við dýr eru þættir sem bæta heilsu og tilfinningalega líðan auk þess eiga gæludýr stóran þátt í að draga úr þunglyndi. Gæludýr virðast hafa svipuð áhrif og félagslegur stuðningur fólks og hafa þannig jákvæð áhrif á heilsuna (Garrity, Stallones, Marx og Johnson,1989).
Einstaklingar sem búa einir bindast dýrum sínum nánar en þeir sem ekki búa einir og eiga jafnvel börn. Auk þess myndast sterkari tengsl hjá þeim sem eiga hunda en hjá þeim sem eiga aðrar tegundir gæludýra. Það skiptir einnig máli hvar í lífhringnum fólk er statt hversu mikið það binst dýrum sínum. Fólk sem á uppkomin börn, sem aldrei hefur gifst eða nýbúið að missa maka sinn eiga frekar gæludýr. Þeir sem búa einir eða hafa lítil samskipti við aðra geta myndað svo sterk tengsl við sitt gæludýr að það verður nærri því menskt í huga þeirra. Þetta á sérstaklega við um hundaeigendur (Albert og Bulcroft, 1988).
Hjá Soares kemur fram að sýnt hafi verið fram á að gæludýreigendur fái félagsskap frá dýrum sínum sem síðan getur leitt til betri heilsu. Rannsóknin gaf til kynna að þeir þátttakendur sem áttu gæludýr fóru sjaldnar til læknis en þeir sem ekki áttu gæludýr. Það virðist því sem gæludýraeign geti fullnægt þörfum fyrir félagsskap og tíðni læknisheimsókna eykst ekki eins hjá gæludýraeigendum þótt álag aukist í lífi þeirra (sjá í Siegel, 1990).
Áhrif gæludýraeignar á einmanaleika
Rannsóknir hafa sýnt fram á að gæludýr eru líkleg til að efla lífsgæði eigenda sinna. Það hefur einnig verið sýnt fram á að félagsskapur við gæludýr dregur úr einmanaleika og eykur vellíðan í gegnum lífið (Sable, 1995).
Tengsl og samskipti við aðra er stór þáttur í vellíðan einstaklingsins. Einmaleiki er að vera utan við, að vera ekki tengdur neinum, að vera án félagsskapar eða vinar. Einmanaleiki er álag eins og sársauki, missir og ótti. Hann getur aukið líkur á ýmsum sjúkdómum svo sem hjartaáfalli, heilablæðingu eða magasári. Einmanaleiki getur aukið líkur á veikindum og tafið fyrir bata (Delta Society, e.d.d). Þessi upptalning sýnir hve einmanaleiki hefur víðtæk áhrif. Hve tengsl við aðra eru mikilvæg manninum. Tengsl og snerting við aðra og að þykja vænt um einhvern er lífsnauðsynlegt fyrir alla og getur skipt sköpum fyrir heilsuna. Sú vellíðan sem myndast með því að vera snertur er nauðsynleg allt lífið. Þeir sem eru sjúkir eða aldraðir fá oft ekki þörf sinni fyrir snertingu fullnægt og þjást þar af leiðandi af andlegum og líkamlegum einkennum vegna þessa. Jafnvel lágmarkssnerting á handarbak sjúklings sem dvelur á sjúkrahúsi getur verið sjúklingi mikilvæg (Wade og Tavris, 2003).
Að umgangast dýr eykur tilfinningalega og líkamlega vellíðan auk þess að efla samskipti við aðra og minnka einmanaleika (Cangelosi og Embrey, 2006). Lynch fjallar einnig um einmanaleika en hann telur að með því að koma í veg fyrir einmanaleika muni það jafnframt hafa jákvæð áhrif á líkamlega heilsu (sjá í Delta Society, e.d.d). Auk þess geta gæludýr gefið mikilvægan stuðning og hlýju þeim sem gengið hafa í gegnum erfiðleika svo sem eins og skilnað eða dauðsfall maka (Albert o.fl. 1988).
Svo virðist sem að gæludýraeign dragi úr þörf á læknisheimsóknum. Siegel (1990) sýndi fram á að sálrænn/tilfinningalegur vandi hjá eldri borgurum eykur tíðni læknisheimsókna en auk þess hefur líferni sem veldur álagi einnig í för með sér aukningu á læknisheimsóknum. Ástæða þessa er sú að streituvaldandi líferni fléttast sálrænum vanda og að einstaklingar sem lifa við álag taka frekar eftir líkamlegum einkennum. Að missa maka er mikið áfall, en eins og gefur að skilja eru eldri borgarar sá þjóðfélagshópur sem algengast er að missi maka sinn. Þetta mikla áfall sem makamissir er, getur leitt til erfiðleika svo sem einmanaleika sem er stór þáttur í að fólk leitar læknis. Í ljósi þessa er raunsætt að ætla, að kringumstæður sem stuðla að vellíðan eða draga úr vanlíðan gætu dregið úr þörf að leita læknis.
Eden hjúkrunarheimilin (Eden Alternative)
Á tíunda áratugnum sá, ungur læknir doktor William Thomas forstjóri á hjúkrunarheimili fyrir aldraða, í starfi sínu ýmislegt sem betur mátti fara í umönnunn íbúanna og hann gerðist ötull talsmaður breytinga á starfssemi hjúkrunarheimila. William Thomas hefur þá sýn að það sé hægt að gerbreyta hjúkrunarheimilum og minnka einmanaleika, hjálparleysi og leiða. Draumur hans er að gera hjúkrunarheimilin heimilislegri (Tavormina, 1999). Hjúkrunarheimili Eden Alternative eru ekki eingöngu hugsuð fyrir aldraða heldur einnig fyrir alla þá sem á umönnun þurfa að halda (The Eden Alternative, e.d.).
William Thomas er höfundur Eden Alternative hjúkrunarheimilanna þar sem stefnan er að hafa mannlegt umhverfi, fyrir íbúa hjúkrunarheimila, sem veitir hlýju og alúð í umönnun sinni. Að hans mati hafa hjúkrunaheimili of mikið einblínt á líkamlega heilsu en lítið hugað að andlegri líðan og lífsgæðum. Það eru þrír þættir, að mati Thomas, sem nauðsynlegt er að séu til staðar í rekstri Eden Alternative hjúkrunarheimilanna. Þessir þættir eru börn, plöntur og dýr. Þetta eru þeir þættir að hans mati sem skapa fjölbreytni í heimilishaldið. Eden Alternative er hugsað sérstaklega fyrir hjúkrunarheimili en það er hægt að yfirfæra þetta yfir á aðrar tegundir heimila fyrir aldraða (Tavormina, 1999).
Börn, dýr og plöntur eru mikilvægustu þættir Eden Alternative. Börn veita gleði og athygli. Þau eru ekki að velta mikið fyrir sér andlegum eða líkamlegum vanmætti íbúa hjúkrunarheimila. Við það að eiga samskipti við dýr, eins og ketti og hunda, geta myndast sterk tengsl sem vegur á móti einmanaleika, hjálparleysi og leiða. Á hjúkrunarheimilum þar sem hundar og kettir búa og allir heimilismenn taka þátt í að sinna þeim lítur hver og einn heimilismaður á þau sem sína persónulegu vini. Dýrin verða uppspretta hlýju í lífi sem annars gæti verið einmanalegt (Tavormina, 1999).
Dýr gefa stofnunum heimilislegra yfirbragð. Hægt er að draga úr líkum á veikindum, aðskilnaði frá fjölskyldu, ótta, einmanaleika og jafnvel þunglyndi með því að fá meðferðarhund í heimsókn. Heimsóknin býður upp á tilbreytingu í hið hefðbundna stofnanalíf. Hún gefur íbúum stofnana tækifæri á að hlakka til einhvers og þeir eru oft virkari og móttækilegri í heimsókninni og eftir hana. Auk þess efla heimsóknirnar líkamlega hreyfingu því að strjúka og gæla við dýr krefst hreyfingar. Heimsóknardýrin auka gagnkvæm samskipti vistmanna og almennan áhuga því dýrin gera það auðveldara fyrir ókunnuga að ræða saman (Cangelosi o.fl., 2006).
Dýr og stofnanir hér á landi
Svo virðist vera sem vakning á notagildi dýra sé að koma fram hér á landi. Til að mynda er Kópavogsdeild Rauða krossins farin að bjóða upp á heimsóknarþjónustu hunda. En auk þess að fara í heimahús í heimsókn með hunda er farið á sambýli og stofnanir (Rauði krossinn, e.d.).
Hjá Geðhjálp við Túngötu koma nokkrir starfsmenn daglega með hunda sína í vinnuna og það hefur gefist mjög vel. Andrúmsloft verður afslappaðara og heimilislegra (Ingibjörg Gunnlaugsdóttir munnleg heimild, 8. mars 2007). Frá hundunum fær fólk snertingu og hlýju. Hundarnir hafa róandi áhrif og skjólstæðingar Geðhjálpar njóta þess að fá að vera með hundunum í ró og næði til að strjúka þeim og fá athygli þeirra. En oft er það eina snertingin sem þetta fólk fær. Árásargjarnir einstaklingar verða rólegri og jafnvel sofna með hundunum. Hundarnir gera mikla lukku og oft er eftirspurn eftir að ná athygli þeirra og að fá að hafa þá hjá sér. Skjólstæðingar Geðhjálpar fara síðan út með hundana til að viðra þá og þá er algengt að fólk á förnum vegi komi til þeirra að spjalla. Það gefur þeim mikið því oft er það mjög félagslega einangrað (Ingibjörg Grímsdóttir munnleg heimild, 8. mars 2007).
Á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni kemur starfsmaður einn nær daglega með hund sinn í vinnuna þar sem hann fær að bíða hjá iðjuþjálfaranum. Að sögn iðjuþjálfarans er hann orðinn nauðsynlegur hluti af iðjuþjálfuninni og margir verða fyrir vonbrigðum ef hann mætir ekki. Hún mælir með því að nota hunda í iðjuþjálfun því vistmenn á heimilinu gera sér oft ferð til hennar eingöngu til að hitta hundinn. Í sumum tilfellum hefur þetta leitt til þess að einstaklingar sem ekki hafa fengist til þess að koma í iðjuþjálfun uppgötva í heimsóknum sínum eithvað áhugavert og taka upp frá því þátt í starfinu (Hildur Þráinsdóttir munnleg heimild, 8. mars 2007).
Rannsókn mín beinist sérstaklega að þeim þjóðfélagshópi sem ekki býr við fulla getu, það er að segja örykjum og öldruðum. Rannsóknarspurningin er: Hver er upplifun eldri borgara og öryrkja að gæludýraeign og hvaða áhrif telur það að gæludýraeign hafi á andlega, líkamlega og félagslega líðan
Aðferð
Undirbúningur þessa rannsóknarverkefnis hófst í júní 2006 og lauk í apríl 2007. Í september var sótt um leyfi fyrir rannsókninni og eftir að það barst var hafist handa við að taka viðtöl. Sex viðtöl við gæludýraeigendur voru tekin á tímabilinu frá október til mars og spurningalisti var hafður til hliðsjónar (fylgiskjal 1). Í þessum hluta verður gert grein fyrir undirbúningi og framkvæmd rannsóknarinnar, rannsóknaraðferðum, þátttakendum, gagnasöfnun, skráningu og greiningu gagna.
Aðferðin sem notuð var í rannsókninni nefnist eigindleg aðferðarfræði. Eitt aðalmarkmið eigindlegrar aðferðar er að kynnast lífi heimildarmanna sinna út frá reynslu þeirra og sjónarhóli. Eigindlegar aðferðir eru túlkandi og eru notaðar þegar svarið krefst þess að við lýsum því sem á sér stað. Úrtakið eru nokkrir einstaklingar sem eru valdir sérstaklega. Eigindleg aðferðarfræði byggist á upplifun einstaklinganna sem verið er að skoða. Í henni er ekki verið að vinna með meðaltöl og dreifingu né hvernig hópar tengjast sín á milli eins og gert er í megindlegri aðferðarfræði heldur hvernig einstaklingar upplifa það sem verið er að athuga hverju sinni. Í eigindlegri aðferðarfræði vill rannsakandinn fá meiri upplýsingar en fást í megindlegri aðferðarfræði og það gerir hann með því að taka viðtöl við viðmælendur sína til að fá nánari útskýringar. Rannsakandinn vill vita um upplifun heimildarmanna sinna og hvað þeim finnst sjálfum. Heimildamönnum gefst tækifæri til að tjá sig í sínum eigin orðum og lýsa því sem á sér stað. Í eigindlegri aðferðarfræði er markmiðið að þróa hugtök og kenningar upp úr gögnunum og að lýsa flóknum veruleika. Áhersla er lögð á traust milli viðmælenda og rætt er saman á jafnræðisgrunni (Sigurlína Davíðsdóttir, 2003). Í öllum rannsóknum sama hvort um eigindlegar eða megindlegar aðferðir er um að ræða er algjörum trúnaði heitið.
Þátttakendur
Rannsóknin beindist að gæludýraeigendum og þátttakendur voru valdir með tilliti til heilsufars og gæludýraeignar. Tekin voru viðtöl við sex einstaklinga, fjórir af þeim voru öryrkjar eða tengdir náið öryrkja, tveir af þeim voru komnir á ellilífeyrisaldur auk þeirra var rætt við tvo eldri borgara. Viðmælendum mínum var tjáð að nafnleyndar yrði gætt og var þeim greint frá rannsókninni. Þeir skrifuðu undir upplýst samþykki því til staðfestingar (fylgiskjal 2). Í rannsókninni eru þeir allir með dulnefni.
Fyrsti viðmælandi minn var móðir 16 ára fatlaðrar stúlku. Ég kallaði hana Margréti. Þær búa í þriggja herbergja leiguíbúð á jarðhæð í nokkuð stóru fjölbýlishúsi. Þær eiga eins og hálfs árs íslenskan hund. Margrét vinnur úti hálfan daginn en dóttir hennar er í framhaldsskóla.
Öðrum viðmælanda mínum gaf ég nafnið Anna. Hún býr uppi á annarri hæð í mjög stóru fjölbýlishúsi með lyftu. Íbúð hennar er tveggja herbergja. Anna er ekkja og nokkurra barna móðir að nálgast nírætt. Hún hefur þjáðst í mörg ár af stoðkerfisvanda. Í gegnum tíðina hefur hún átt tvær kisur sem voru henni mjög hugleiknar sérstaklega fyrri kisan auk þess hefur hún átt um ævina hina ýmsu fugla.
Þriðji viðmælandi minn var karlmaður í kringum sjötugt hann kallaði ég Alla. Hann er ógiftur og barnlaus. Hann starfaði við sjómennsku í mörg ár. Alli var í mikilli neyslu bæði áfengis og vímuefna frá unglingsárum eða í 46 ár en það eru tvö ár síðan hann hætti allri neyslu. Fyrir ári síðan fékk hann sér chihuahua hund sem er nú sex ára. Þegar Alli var yngri hafði hann átt bæði hund og hest. Hann býr eins og hinir viðmælendur mínir einnig í fjölbýlishúsi. Íbúð hans er tveggja herbergja á annarri hæð.
Fjórða viðmælanda minn kalla ég Jónu hún er 71 árs, fráskilin og á fjögur uppkomin börn. Jóna vann á sjúkrahúsi í fjölda ára. Hún býr í átta íbúða fjölbýli á annarri hæð í þriggja herbergja íbúð. Jóna hefur átt nokkrar kisur á lífsleið sinni.
Fimmti viðmælandinn var einnig kvenmaður en hún er 83 ára kattareigandi og hefur hún alla tíð átt gæludýr af ýmsum gerðum. Ég kalla hana Rósu. Rósa hefur verið ekkja í nær 25 ár og hún á tvö uppkomin börn. Hún býr í tveggja herbergja íbúð í nokkuð stóru fjölbýli á þriðju hæð.
Sjötti og síðasti viðmælandi minn er kona um fertugt sem er öryrki ég kalla hana Petru. Hún er heimavinnandi húsmóðir og á þrjá syni og fjóra hunda þar af þrjá af stærstu gerð og einn mjög lítinn. Hún er fráskilin en býr ásamt sambýlismanni sínum í einbýlishúsi á einni hæð fyrir utan höfuðborgarsvæðið.
Gagnaöflun
Við gagnaöflun var sá háttur hafður á, að haft var samband við heimahjúkrun og heimaþjónustu. Auk þess að spyrja vini og vandamenn um hvort þeir þekktu hunda- eða kisueigendur sem myndu vilja ræða við mig. Tekin voru sex djúpviðtöl. Þau fóru fram á heimilum þátttakenda í rannsókninni og gáfu þau mikilvæga innsýn inn í líf viðkomandi. En megináherslan var á að hvetja þátttakendur til að lýsa í eigin orðum reynslu sinni af því að eiga gæludýr og fjalla um þá þætti sem skipti þá mestu máli. Í djúpviðtölum er ekki stuðst við staðlaða spurningalista heldur er viðtalið mun líkara venjulegu samtali en formlegu viðtali. Tilgangur opinna viðtala er að fá viðmælendann til að lýsa í eigin orðum lífi sínu og reynslu. Viðtölin tóku um það bil 45 mínútur hvert. Þau voru tekin upp og síðan afrituð frá orði til orðs. Heildarblaðsíðufjöldi viðtalsgagna voru 139 blaðsíður.
Skráning og úrvinnsla gagna
Eftir að hafa afritað gögnin og sett athugasemdir mínar inn í þau, voru gögnin marglesin með það að markmiði að finna þau meginþemu sem þar var að finna. Kannað var í gögnum hvað var sameiginlegt og hvað ekki með viðmælendum mínum. Fundin voru þemu, svo sem hver var upplifun viðmælendanna, hvert var þeirra sjónarhorn, hverjar voru sögur þeirra og frásagnir.
Niðurstöður
Jákvæð áhrif
Það sem á eftir kemur byggist á greiningu gagnanna og skiptist umfjöllunin í fjögur þemu. Fyrsta þemað hef ég valið að kalla jákvæð áhrif og það skiptist í þrjú undirþemu, annað þemað kallast neikvæð árhif, það þriðja félagsleg samskipti og síðasta viðmót.
Umhyggja
Í rannsókninni var sérstaklega leitað eftir því hvernig tilfinningar gæludýraeigendurnir báru til gæludýra sinna. Margrét talaði ekki um hve vænt henni þætti um hundinn enda var það ekki að hennar frumkvæði að þær mæðgur fengu sér hund, heldur hafði dóttirin lengi óskað þess. En að mati Margrétar taldi hún að hundurinn hafi bjargað síðasta vetri „allavega þessu andlega ástandi á heimilinu“ eins og hún orðaði það.
Seinni viðmælendur mínir sýndu mun meiri ást og hlýju til sinna gæludýra og notuðu sterk lýsingarorð við að lýsa því hve mikið það gæfi þeim að eiga gæludýr. Þegar Jóna talar um kisuna sína nefnir hún hana oft sem drottninguna sína. Aftur á móti sagði Anna að kisan sín hafi verið fjölskyldumeðlimur og að hún hafi tilheyrt fjölskyldunni. Hún sýndi sterkar tilfinningar til gæludýrs síns og það heyrðist á mæli hennar, eins og hinna fjögurra viðmælenda minna, að þetta var henni hennar hjartans mál „það er bara óborganlegt maður er aldrei einn […] eins og maður sé með góðan vin“. Það var hægt að sjá og heyra hversu gaman henni þótti að rifja upp kynni sín á gæludýrum sínum. Henni var sérstaklega tíðrætt um köttinn sinn, hana Freyju, sem hún átti fyrir nær 40 árum en hún var henni sérstaklega kær. Þetta sýnir hve fólk getur tengst dýrum náið. Rósa sagði að það væri eins og fólk skyldi ekki þessar tilfinningar eða eins og hún sagði „mér þykir svo óskaplega vænt um hana, þetta er eins og litla barnið manns“ auk þess sagði hún „ég elska hana út af lífinu“. Petra lýsti umhyggju sinni á sínum dýrum á svipaðan hátt. Hún sagðist þykja eins vænt um hundana sína eins og börnin sín og það væri „þreytandi“ þegar talað væri illa um gæludýr fólks. Engin myndi voga sér að segja við foreldra það sem stundum er sagt við gæludýraeigendur til að mynda að það ætti að losa sig við dýr sín því þau væru svo „óþolandi“. Alli var á sama máli. Hann sagði „þetta er lífið“. Hann væri einn og að honum fyndist „dásamlegt“ að hafa hundinn sinn og að hugsa vel um hann því hann væri svo „frábær“.
Hjá hinum viðmælendum mínum fimm þeim, Alla, Jónu, Önnu, Rósu og Petru kom skýrt fram hvað þeim fannst dýrin gefa þeim mikið. Þeim þykir mjög vænt um dýr sín og þau töluðu um hvernig dýrin sýndu þeim ást og væntumþykju. Alli lýsti því hvernig hundurinn hleypur fagnandi um alla stofuna þegar hann kemur heim eftir að hafa skilið hundinn eftir einan í smástund. Hann er þá alsæll yfir því að vera búinn að fá eiganda sinn aftur heim. Og Jóna sagði frá því að kisan hennar lætur hana alltaf vita að hún viti að Jóna sé komin heim. Rósa sagði þetta líka að kisan eltir hana um alla íbúð fyrst eftir að hún komi heim frá útlöndum en þangað fer Rósa stöku sinnum nokkrar vikur í senn.
Viðmælendur mínir notuðu sterk orð til að lýsa hve vænt þeim þætti um gæludýr sín eins og til að mynda lýsingarorðin „frábær“, „dásamlegt“, „óskaplega vænt um“, gæludýrin eru þeim greinilega mikils virði. Fjórir af viðmælendum mínum notuðu lýsingarorðið „yndisleg“ við að lýsa gæludýri sínu.
Það er greinilegt að hjá þeim sem búa einir er það sérstaklega mikils virði að eiga gæludýr. Fjórir af viðmælendum mínum voru eldri borgarar sem búa einir. En Anna treystir sér ekki lengur að eiga gæludýr vegna þeirrar sorgar sem hún hefur orðið fyrir við missi þeirra. En hinir þrír sem ég ræddi við voru sammála því að þetta væri þeim mjög mikilvægt. Jóna komst svona að orði: „þetta er ómetanlegt að fá að hafa svona þegar fólk hefur heilsu til þess og sérstaklega þegar það er orðið einsamalt þá á að leyfa þetta“ .
Tilfinningar Önnu, Jónu og Rósu til gæludýra sinna eru svo sterkar að þær tala allar um að þær treysti sér varla eða ekki til að fá sér aftur gæludýr vegna óttans við hina miklu sorg sem verður við dauða dýranna. Þær segja að þær treysti sér ekki til að upplifa sorgina aftur.
Petru finnst mikilvægt fyrir börn að alast upp með gæludýr á heimili sínu. Hún telur það vera mjög jákvætt fyrir þau, það kennir þeim aga því það þarf að sinna dýrinu alla daga, það kennir þeim einnig að lesa í hegðun dýranna sem nýtist í öllum félagslegum samskiptum. Með því að eiga gæludýr er verið að búa þau undir margt annað félagslega.
Gæludýrið sem félagi
Margrét bar blendnar tilfinningar til hundsins en hún sagði samt að hann hefði jákvæð áhrif á heimilislífið. En dóttir hennar er mjög félagslega einangruð og hefur átt erfitt með að vera ein heima, þannig að Margrét hefur verið mjög bundin yfir henni. Eftir að hundurinn kom á heimilið treystir dóttir hennar sér að vera ein heima á kvöldin en það gerði hún ekki áður. Þetta hefur leitt til þess að Margrét getur skroppið út á kvöldin. Hundurinn er orðinn nokkurs konar félagi fyrir dóttur hennar, hún (dóttirin) „hefur alltaf vininn hann er ekki að hafna þér“. Auk þess fagnar hundurinn henni þegar hún kemur heim „það virkilega einhver sem vill vera með þér“.
Alli sagðist hafa fengið sér hund til að hafa góðan félaga, áður hafi hann „bara verið einn“, en nú sé hann það ekki lengur og hann sagðist tala mikið við hann. Hann telur líklegt að það sé vegna hundsins sem honum tókst að búa sér til nýtt líf og hætta í neyslu að hans mati hafi hundurinn sitt að segja í þeim efnum. Því hundar gefa svo „rosalega mikið […] þeir gefa alveg rosalega mikið“. „Þegar ég er að vakna á morgnanna og kem hingað fram þá er ég einn. En þá kemur hann til mín og eltir mig út um allt og svona þetta var ekki svona áður þá var ég bara einn“. Jóna kemur líka inn á þetta „maður er ekkert einn nú okkar dagur byrjar venjulega sjö og þá fer mamma fram úr“.
Það er áberandi hjá Önnu, Rósu og Jónu, þær tala allar mikið við kisurnar sínar og þá breyta þær málrómnum eins og oft er gert þegar talað er við lítil börn.
Einmanaleiki
Allir viðmælendur mínir ræddu mikið um hvernig dýrin drægju úr einmanaleika. Margrét sagði „hundurinn tekur allan einmanaleika“ en hún fékk sér hann vegna félagslegrar einangrunar dóttur sinnar. Petra sagði frá sömu reynslu með son sinn, sem er greindur með ofvirkni og athyglisbrest. Hann upplifði einnig félagslega einangrun eins og dóttir Margrétar:
„Það að við eignuðumst hund gerði það að verkum að hann átti tryggan félaga alltaf, sem reif aldrei kjaft, fór aldrei í fýlu, nennti alltaf að hanga og leika og úti að leika og að vera hjá honum, kjaftaði aldrei frá leyndarmálum og […] ýtti honum aldrei í burtu “.
Að mati Önnu sem alla tíð hefur átt gæludýr hafa þau stuttu tímabil sem hún hefur verið án þeirra verið „alveg ómöguleg“:
„Þegar maður er orðinn svona einn sko til dæmis fólk sem að ekki margir heimsækja. Þá hefur þú engan til að flytja tilfinningar þínar yfir og gefa þær en það gefurðu dýrinu. Þar með færðu útrás þú getur sýnt því blíðu og dýrið segir ekkert við því þó þér líði kannski illa það kemur kannski til þín og bara sleikir þig í framan eða sleikir á þér hendurnar og þú getur sagt dýrinu mér líður óskaplega illa“.
Jóna minntist einnig á einmanaleikann hún sagði að kisan sín gæfi sér „alveg svakalega mikið, það væri oft einmanlegt ef hún væri ekki“. Alli fékk sér hund til þess að vera ekki svona mikið einn og Rósa sagði að hún gæti ekki hugsað sér að vera án Sússu sinnar því „það kemur eiginlega enginn hérna, það er voðalega sjaldan það hefur svo mikið að gera fólkið og ég er voðalega mikið ein […] kisan mín bjargar því“. Þetta sama sagði Jóna að það væri „oft voðalega einmanalegt“ ef kisan væri ekki og að það væri „ekki hollt að vera einn“.
Neikvæð áhrif
Ekki fór mikið fyrir neikvæðum hliðum gæludýraeignar hjá viðmælendum mínum. Það var helst hægt að finna neikvæðar tilfinningar gagnvart gæludýraeign hjá Margréti. Það var ekki að hennar frumkvæði að hún fékk sér hund heldur var hún að fá sér hund fyrir dóttur sína. Hún greindi frá neikvæðum hliðum, henni fannst það gífurleg vinna að eiga hund. Það þarf að þrífa heimilið meira auk þess að fara með hundinn út alla morgna. Hún óttast einnig að hún lykti vegna hundsins.
Hinir viðmælendur mínir sögðu aftur á móti ekki neitt neikvætt við að eiga gæludýr. Alli minntist á að auðvitað væri allt fullt af hundahárum en „maður bara ryksugar“ sagði hann og gerði ekki mikið veður út af því. Petra var á sama máli og Alli. Hún gerði ekki mikið úr neikvæðum þáttum eins og að:
„hundar eyðileggja gólfefni, parkettið er ónýtt frammi á gangi og þeir eiga það til að naga hluti, sófinn minn er útnagaður, húsgögn og svona, það er subbuskapur sem fylgir þessu. Það þarf að þrífa skítinn, þetta kostar peninga […] en ég held að jákvæðu hlutirnir vega svo miklu þyngra“ sagði hún með áherslu.
Félagsleg samskipti
Eitt af þeim atriðum sem sérstaklega var leitað eftir var hvort breyting hafi orðið á félagslegum samskiptum eftir að hafa fengið sér gæludýr.
Það var sammerkt hjá hundaeigendunum að þeim fannst það að eiga hund yki samskipti þeirra við aðra og ekkert annað en jákvætt hafi komið fram. Það að vera með hund úti að ganga verður til þess að þeir sem maður mætir, gefa sig frekar að manni.
Þetta kemur vel fram hjá Margréti þegar hún segir að fólk tali frekar við þig ef þú ert með hund, þá sé hundinum heilsað og svo þér í leiðinni. Nágrannar sem ekki gáfu sig áður að manni eru farnir að spyrja um hundinn. Samskipti dóttur Margrétar við aðra hafa aukist, fólk gefur sig að henni þegar hún er úti með hundinn sem það hefði annars ekki gert ef hún væri ekki með hann. Alli talaði einnig um þetta. Hann sagðist vera hlédrægur og feiminn en eftir að hann fékk sér hund hafi hann átt meiri samskipti við fólk því fólk stoppar hann á förnum vegi vegna hundsins. Og það er hann ánægður með því honum finnst gaman að fá að tala við fólk. Að mati Petru hafa hundarnir mikil áhrif til aukningar á félagslegum samskiptum bæði fyrir hana og börn hennar. „Maður á fullt af vinum í hundunum“ segir hún með áherslu, sem hún hefur kynnst bæði í gegnum netið og hundafélagið sem hún er í og auk þess með því að fara út til að viðra hundana. Vinir yngsta sonar hennar sækjast sérstaklega eftir því að fá að koma inn að leika, mikið til vegna hundanna „svo er alveg slefað alveg yfir hundunum“. Hún hefur einnig fengið heimsókn leikskólabarna úr nágrenninu til að þau geti fræðst um hunda. Petru fannst það mjög jákvætt framtak hjá leikskólanum að koma í heimsókn „að fá leikskólann inn á heimilið og fá krakka sem aldrei höfðu klappað hundi og þá fá þau að læra hvernig maður nálgast hund, það þarf að fræða börn hvernig við nálgumst dýr“.
Það er einnig hægt að draga þá ályktun að kattareign auki félagsleg samskipti en að sögn Rósu stoppar fólk oft á stigapallinum hjá henni ef hún hefur opið fram og spjallar og hún vill meina að það stoppi lengur vegna kattarins. Hjá Jónu á það sama við en börnin í stigaganginum koma oft við hjá henni til að heilsa upp á kisu.
Viðmót
Í þessum kafla er gert grein fyrir því viðmóti sem viðmælendur mínir hafa fundið fyrir hjá nágrönnum sínum og fólki á förnum vegi gagnvart gæludýraeign sinni.
Í rannsókninni kom fram ótti hundaeigendanna um viðbrögð nágranna sinna. Strangar reglur eru hér á landi um hundahald og íbúar í fjölbýlishúsum ber að fá skriflegt samþykki fyrir hundahaldinu. Bæði Margrét og Alli óttuðust það mikið viðmót nágranna sinna að þau þorðu ekki að biðja um leyfi fyrir hundum sínum af ótta við synjun. Þau ákváðu því bæði að halda því leyndu að þau væru búin að fá sér hund. Margir nágranna Margrétar héldu og halda jafnvel enn að þetta sé tilraunaverkefni að hafa hund í húsinu. Hún hefur nokkrar áhyggjur af hundi sínum, þar sem hún er í leiguhúsnæði og óttast hvað verður ef eigendurnir uppgötva hundinn. Allir nágrannar hennar hafa aftur á móti tekið hundahaldi þeirra mæðgna vel. Svo er einnig hjá Alla. Hann hélt því leyndu fyrir nágrönnum sínum í tvo mánuði að hann væri búinn að fá sér hund. Hundur hans er vel liðinn þar sem hann býr og nokkrir íbúar í húsinu hafa fylgt fordæmi hans og hafa einnig fengið sér hund.
Samskipti Alla við aðra hafa aukist og hann hefur kynnst „fullt af fólki“. Honum „finnst gaman að fá að tala við fólk ef það vill fá að klappa honum og mér finnst það bara besta mál og honum (hundinum) finnst það líka voða gaman“ segir Alli hlæjandi. Petra greindi frá því að hundarnir hennar væru „ofsalega mikill segull á nágrannakrakkana í hverfinu […] þetta er svona upphaf að vinskap hjá mörgum“
Nágrannar Önnu tóku kattarhaldi hennar vel og nokkuð er um gæludýrahald í fjölbýlishúsi hennar. Til marks um það hve miklir dýravinir nágrannar hennar eru að þegar köttur hennar týndist fékk hún mikla hjálp frá nágrönnum sínum við leit að honum. Svo var einnig með Rósu þegar hennar köttur stökk niður af svölunum og týndist þá hjálpuðu íbúar hússins við að leita að henni.
Allir viðmælendur mínir eiga það sameiginlegt að nágrannar þeirra hafa tekið dýrhaldi þeirra mjög vel. Það viðmót sem þau hafa fengið hefur því eingöngu verið jákvætt. Það var eingöngu einn nágranni, sem bjó í sama húsi og Jóna um tíma, sem var ósáttur við að hún hefði kött inni í sinni íbúð. Petra beið árum saman eftir að fá sér hund þar sem hún bjó í fjölbýlishúsi. Hún talaði um hve ánægð hún væri að geta keypt sér einbýli en er ósátt við það að það sé í raun bara á færi þeirra efnameiri að eiga hunda þar sem hundahald er bannað í fjölbýli.
Umræða
Í rannsókn þessari hefur verið leitast við að skoða upplifun eldri borgara og öryrkja á gæludýraeign og hvaða áhrif það telur að gæludýraeign hafi á andlega, líkamlega og félagslega líðan. Niðurstöðurnar sem hér hafa verið raktar endurspegla fyrst og fremst sjónarhorn þessara sex viðmælenda minna. Rannsókn mín gefur vísbendingar um að hundar og jafnvel kettir geta aukið félagsleg samskipti fólks. Hundaeigendurnir í rannsókninni greindu frá því að félagsleg samskipti þeirra hafi aukist eftir að hafa fengið sér hund. Það að fara út til að viðra hundinn gerir það að verkum að fólk á förnum vegi gefur sig að þeim. Rannsókn þessi gefur því vísbendingar um að dýr séu uppspretta félagslegra samskipta eins og niðurstaða rannsóknar Beck og fleiri (2003) sýndi.
Það kom skýrt fram í gögnunum, þær sterku tilfinningar sem fólk ber til gæludýra sinna og hve mikið það gefur þeim að eiga gæludýr. Notuð voru sterk lýsingarorð til að lýsa tilfinningum eins og að það sé alveg „óborganlegt“ að eiga gæludýr og að það sé „yndislegt “. Það er greinilegt að gæludýr gefa Önnu, Alla, Jónu, Rósu og Petru mjög mikið það kemur ekki eins sterkt fram hjá Margréti. Anna, Jóna og Rósa tala um að þær treysti sér varla til að fá sér aftur gæludýr því þær óttast sorgina við missi þeirra. Alli aftur á móti talar ekki um það, en ég tel það vera vegna þess að hann er ekki eins opinskár og tjáir ekki tilfinningar sínar eins auðveldlega og konurnar. Enda hefur hann átt erfitt líf en hann var í mikilli neyslu, bæði áfengis og vímuefna, í áratugi. Rósa er það hænd að kisunni sinni að þrátt fyrir að heilsa hennar sé það léleg að hún gæti fengið pláss á stofnun fyrir aldraða afþakkar hún það því hún vill ekki yfirgefa kisuna sína. Þetta styður niðurstöður Friedmanns og fleiri (1980) um að gæludýraeign geti seinkað innlögn á sjúkrahús. Í öllum viðtölunum kemur fram að gæludýrin eru félagar en samkvæmt Lynch þá fæst félagslegur stuðningur af gæludýrum og sterk tengsl geta myndast á milli manneskju og dýrs (sjá í Beck o.fl., 2003). Rannsókn mín gefur auk þess svipaðar vísbendingar og niðurstöður Sable (1995) og Beck og fleiri (2003) um að gæludýr auki vellíðan fólks.
Allir þátttakendur rannsóknarinnar töluðu um að gæludýraeign þeirra dragi úr einmanaleika. En einmanaleiki getur valdið hinum ýmsu vandamálum sem tengsl fólks við gæludýr geta komið í veg fyrir (Beck o.fl., 2003). Petra og Margrét minntust á hve hundarnir væru mikilvægir fyrir börn sín. Þeir væru félagar barnanna og þær fundu jákvæð áhrif hundanna á líðan þeirra. Orð þeirra styðja kenninguna um tengsl dýra og fólks (Human-Animal Bond) um að samskipti við dýr hafi heilsueflandi áhrif á fólk og auki lífsgæði (Risley-Curtiss o.fl., 2006). Fyrir börn, fatlaða og aldraða geta þessi samskipti verið sérstaklega mikilvæg því þessir hópar geta átt dýrmæt samskipti við gæludýr sín með snertingu og félagsskap (Netting o.fl., 1987). Að eiga góð tengsl við gæludýr getur leitt til betri andlegrar og líkamlegrar heilsu þegar félagsleg samskipti eru ófullnægjandi að mati Cangelosi og fleiri (2006) auk þess að efla samskipti og draga úr einmanaleika. Allir þátttakendur í rannsókn minni greindu frá því að þeir töldu að gæludýrin drægi úr einmanaleika hjá þeim. Þeir sögðust tala við dýrin eins og þeir tala við annað fólk. Peretti (1990) komst að sömu niðurstöðu þegar hann skoðaði tengsl eldri borgara við hunda sína. Þeir sem bjuggu einir sögðust tala við hund sinn eins og hann væri mennskur. Í minni rannókn virtist ekki vera munur á því hvort viðmælendur mínir ættu hund eða kött. Kattareigendurnir töluðu ekki síður við kisurnar sínar.
Alli, Petra og Jóna töluðu um það hlutverk sem gæludýrin gefa þeim. Alla og Jónu fannst það gefa þeim mikið að hafa þetta hlutverk að sinna dýrinu sínu. En samkvæmt athafnakenningunni (Activity Theory) er það mikilvægt að hafa alltaf eithvað fyrir stafni (Kart, 1997). Petra talaði um að henni fyndist sú vinna sem fylgir dýrunum jákvæð. Börnin læra aga á því að þurfa að sinna þeim því það þarf að hugsa um dýrin alla daga. Auk þess fannst henni það hafa hvetjandi áhrif á sig, umönnun þeirra eins og að fara með þau út að viðra sig. Að hennar sögn hefur hún einnig mjög gott af þeirri hreyfingu sem hún myndi líklega ekki stunda ef hún ætti ekki hundana. Hún hélt því fram að hundarnir hefðu haft jákvæð áhrif á heilsu sína að hún hafi mun meiri styrk vegna þeirrar hreyfingar sem hún fær við að viðra þá. Alli talaði einnig um heilsueflandi árhif hunds síns en hann hefur aukið mikið hreyfingu vegna hans. Kisan hennar Jónu hefur meira að segja aukið hreyfingu hennar því hún fer ekki út nema Jóna komi með. Þessi orð gefa vísbendingar í samræmi við rannsókn Garrity og fleiri (1989) um að gæludýr bæti heilsu og tilfinningalega líðan.
Rannsókn mín rennur stoðum undir niðurstöður rannsókna Albert og fleiri (1988) og Beck og fleiri (2003) um að þeir sem búi einir bindist dýrum sínum nánar. En hvort sterkari tengsl myndist milli hundaeigenda eða kattareigenda get ég ekki fullyrt. Tengsl Önnu, Jónu og Rósu við kisur sínar voru mjög mikil og einnig hjá Alla. Þegar rætt var við Margréti og Petru var ekki hægt að greina þessi mjög svo sterku tengsl eins og þeir viðmælendur mínir höfðu sem bjuggu einir. Það var samt greinilegt á Petru hve mikilvæg dýrin voru henni en umhyggjan virtist ekki eins mikil eins og hjá hinum konunum þremur. Hugsanlega er það vegna þess að Petra býr ekki ein. Rósa hafði einnig kynnst hvernig það er að búa á heimili þar sem hundur býr og hún vildi meina að þeir gæfu manni meira. Aftur á móti er það mun meiri vinna að eiga hunda og einnig þurfa hundaeigendur að vera með þokkalega heilsu til að geta sinnt hundum sínum vel. Það er því hægt að draga þá ályktun að fyrir fólk sem ekki er við fulla heilsu sé það raunsærri möguleiki fyrir það að fá sér kött til þess að draga úr einsemd sinni.
Það er mat viðmælenda minna að gæludýr gefa þeim mikið félagslega, dýrin eru félagar þeirra. Að auki opnar það tækifæri til félagslegra samskipta að vera með hund á almannafæri. Rannsóknin gefur þannig vísbendingu um að gæludýraeign dragi úr félagslegri einangrun og auki félagsleg samskipti fólks. Jafnframt að almenningur sé hugsanlega mun sáttari við gæludýrahald í þéttbýli en reglur gefa í skyn.
Rannsókn mín beindist sérstaklega að upplifun eldri borgara og öryrkja af gæludýraeign og hvaða áhrif þeir telji að gæludýraeign hafi á andlega, líkamlega og félagslega líðan. Niðurstaða rannsóknarinnar gefur vísbendingu um að gæludýraeign geti haft jákvæð áhrif á andlega, líkamlega og félagslega líðan eldri borgara og öryrkja.
Það er von mín að fleiri sjái ástæðu fyrir því að gera frekari rannsóknir á þessu sviði hér á landi og jafnframt að opnað verði þannig fyrir þann möguleika að nýta gæludýr í meðferðaskyni á sjúkrahúsum og stofnunum eins og gert er víða erlendis.
Heimildir
Albert, A. og Bulcroft, K. (1988). Pets, Families, and the Life Course [Rafræn útgáfa]. Journal of Marriage and the Family, 50, 543-553.
Beck, A. M. og Katcher, A. H. (2003). Future Directions in Human-Animal Bond Research [Rafræn útgáfa]. The American behavioral Scientist, 47 (1), 79-93.
Berk, L. E. (2004). Development Through the Lifespan (3. útgáfa). Boston: Pearson Education Inc.
Bovsun, M. (2006). My Dog kept Me Sane [Rafræn útgáfa]. AKC Gazette, 123 (9), 42-46.
Cangelosi, P. R. og Embrey, C. N. (2006). The Healing Power of Dogs Cocoa’s Story [Rafræn útgáfa]. Journal of Psychosocial Nursing & Mental Health Services, 44 (1), 17.
Connor, K. og Miller, J. (2000). Animal-assisted therapy: An in-depth look [Rafræn útgáfa]. Dimension of Critical Care Nursing, 19 (3), 20-27.
Delta Society. (e.d.a). A Rememberance of Leo K. Bustad, DVM, PhD. Sótt 6. febrúar 2007 af http://www.deltasociety.org/AboutAboutLeo.htm.
Delta Society. (e.d.b). Mission and Goals. Sótt 20. febrúar 2007 af
http://www.deltasociety.org/AboutAboutMission.htm#mission.
Delta Society. (e.d.c). About Animal-Assisted Activities & Animal-Assisted Therapy. Sótt 21. febrúar 2007 af http://www.deltasociety.org/AnimalsAAAAbout.htm.
Delta Society. (e.d.d). Loneliness: A Health Hazard of Modern Times
Sótt 5. mars 2007 af
http://www.deltasociety.org/AnimalsHealthGeneralLonliness.htm.
Delta Society. (e.d.e). Companion Animals as Social Facilitators and Conclusions. Sótt 6. febrúar 2007 af http://www.deltasociety.org/AnimalsHealthCompanionComp4.htm.
Faver, C. A. og Strand, E. B. (2003). Special section: Domestic violence and social work education. Domestic violence and animal cruelty: Untangling the web of abuse [Rafræn útgáfa]. Journal of Social Work Education, 39, 237-253.
Friedmann, E., Katcher, A. H., Lynch, J. J. og Thomas, S. A. (1980). Animal Companions and One-Year Survival of Patients After Discharge From a Coronary Care Unit [Rafræn útgáfa]. Public Health Reports, 95, 307-312
Friedmann, E. og Thomas, S. A. (1995). Pet Ownership, Social Support, and One-Year sSurvival After Acute Myocardial Infarction in the Cardiac Arrhythmia Suppression Trial (CAST) [Rafræn útgáfa]. The American Journal of Cardiology, 7, 1213-17.
Garrity, T. F., Stallones, L., Marx, M. B., og Johnson, T. P. (1989). Pet Ownership And Attachment As Supportive Factors In The Health Of The Elderly [Rafræn útgáfa]. Anthrozoos, 3 (1), 35-44.
Goldstein, E. G. (2001). Object Relations Theory and Self Psychology in Social Work Practice. New York: A Division of Simon & Schuster, Inc.
Goldstein, E. (1996). Ego Psychology Theory. Í F. J. Turner (Ritstj.), Social Work Treatment (4. útgáfa) (bls. 191-217). New York: The Free Press.
Hines, L. M. (2003). Historical Perspectives on the Human-Animal Bond [Rafræn útgáfa]. The American Behavioral Scientist, 47 (1), 7.
Ingibjörg Hjaltadóttir, Ásta B. Pétursdóttir, Gerður Sæmundsdóttir, Guðrún Lovísa Víkingsdóttir og Ída Atladóttir. (2002). Rannsóknarskýrsla. Meðferð heilabilaðra sjúklinga með hjálp hunda; sjáanleg áhrif á líðan sjúklinga á öldrunarlækningardeildum fyrir heilabilaða. Reykjavík: Öldrunarsvið Landspítala-háskólasjúkrahúss Landakoti.
Ísafjarðarbær. (e.d). Dýrahald. Sótt 16. mars 2007 af http://www.isafjordur.is/umsoknir%5Fog%5Feydublod/dyrahald/.
Kart, C. S. (1997). The Realities of Aging, An Introduction to Gerontology (5. útgáfa). Boston: Allyn & Bacon.
Netting, F. E., Wilson, C. C. og New, J. C. (1987). The Human-Animal Bond: Implications for Practice [Rafræn útgáfa]. Social Work, 32, 60.
Peretti, P. O. (1990). Elderly-Animal Friendship Bonds [Rafræn útgáfa]. Social Behavior & Personality: An International Journal, 18, 151-156.
Raina, P., Waltner-Toews, D., Bonnet, B., Woodward, C. og Abernathy, T. (1999). Influence of companion animals on the physical and psychological health of older people: An analysis of a one-year longitudinal study. Journal of the American Geriatrics Society, 47, 323-329. Sótt 21. febrúar 2007 af http://proquest.umi.com/pqdweb?index=6&did=41282372&SrchMode=3&sid=1&Fmt=2&VInst=PROD&VType=PQD&RQT=309&VName=PQD&TS=1177868590&clientId=58032&aid=1.
Rauði krossinn. (e.d.). Kópavogsdeild. Sótt 6. mars 2007 af http://redcross.is/Apps/WebObjects/RedCross.woa/wa/dp?id=1000221.
Reykjavíkurborg. (e.d). Borgarstjórnarfundur 19. september 2006. Sótt 23. mars 2007 af http://reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skjol/stjornkerfi/umraedur/2006_sept_des/190906-5.m_l_fundarg._borgarr__s.pdf.
Risley-Curtiss, C., Holley, L. C. og Wolf, S. (2006). The Animal-Human Bond and Ethnic Diversity [Rafræn útgáfa]. Social Work, 51, 257-269.
Sable, P. (1995). Pets, Attachment, and Well-Being across the Life Cycle [Rafræn útgáfa]. Social Work, 40, 334-342.
Siegel, J. M. (1990). Stressful Life Events and Use of Physician Services among the Elderly: The Moderating Role of Pet Ownership [Rafræn útgáfa]. Journal of Personality and Social Psychology, 58, 1081.
Sigurlína Davíðsdóttir. (2003). Eigindlegar eða megindlegar rannsóknaraðferðir (Ritstj.), Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í heilbrigðisvísindum, (219-235). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.
Tavormina, C. E. (1999). Embracing The Eden Alternative in Long-term Care Environments [Rafræn útgáfa]. Geriatric Nursing, 20, 158-161.
The Eden Alternative. (e.d.). What is Eden. Sótt 5. mars 2007 af http://www.edenalt.com/about.htm.
University of Twente. (e.d.). Social Cognitive Theory. Sótt 26. febrúar 2007 af http://www.tcw.utwente.nl/theorieenoverzicht/Theory%20clusters/Health%20Communication/Social_cognitive_theory.doc/.
U.S. Department of Health & Human Services. (e.d.). Delta Society® – NSDC. Sótt 2. mars 2007 af http://www.healthfinder.gov/orgs/HR2375.htm.
Wade, C. og Tavris, C. (2003). Psychology (7. útgáfa). New Jersey: Pearson Education, Inc.
Fylgiskjal 1
Spurningalisti
1. Hvað kom til að þú ákvaðst að fá þér hund/kött?
2. Hvernig finnst þér að eiga hund/kött ?
3. Mælirðu með því að fólk eigi gældýr?
4. Hefur það að eiga gæludýr áhrif á daglega líðan?
5. Verðurðu fyrir hindrunum við það að eiga hund/kött?
6. Breyttist lífið við að fá sér hund/kött ef svo er hvernig þá ?
7. Hvernig er viðmót samfélagsins?
8. Myndirðu fá þér aftur hund/kött ?
9. Hvað er það helst sem þér finnst jákvætt og hvað neikvætt við það að eiga hund/kött?
10. Myndirðu vilja breyta eithvað reglum um dýrahald – myndirðu vilja rýmka þær eða þrengja?
11. Eru samskipti þín við fólk öðruvísi þegar þú ert með hundinn?
12. Koma börn öðruvísi fram við þig þegar hundurinn er með þér?
13. Koma fullorðnir öðruvísi fram við þig þegar hundurinn er með þér?
14. Sérðu eftir því að hafa fengið þér hund/kött?
15. Eru einhverjir vankantar á því að eiga hund/kött?
16. Hefur hundurinn breytt venjum þínum þ.e.a.s. m.t.t. hreyfingar og lífsvenja?
17. Finnst þér félagsleg staða þín hafa breyst í tengslum við að eiga hund/kött?
18. Hefur fólk á almannafæri meiri samskipti við þig eða minni þegar þú ert með hundinn?
19. Færðu jákvæð viðbrögð eða neikvæð þegar þú ert á almannafæri með hundinn?
20. Eiga takmarkanir að vera á hundaeign eftir því í hvernig húsnæði fólk býr í?
Fylgiskjal 2
Upplýst samþykki fyrir þátttöku í vísindarannsókn:
Innsýn í upplifun gæludýraeigenda
Kæri þátttakandi
Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Dagný María Sigurðardóttir nemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hægt er að ná í mig í síma 862 8192. Netfang mitt er dagnysi@hi.si. Leiðbeinandi minn er dr. Freydís Jóna Freysteinsdóttir, lektor í félagsráðgjöf.
Markmið rannsóknarinnar er að öðlast innsýn inn í upplifun þeirra sem eiga gæludýr. Með rannsókninni vil ég varpa ljósi á og leita svara við því hvernig gæludýraeigendur upplifa sig í samfélaginu. Finna þeir fyrir jákvæðu viðmóti eða neikvæðu frá samfélaginu og hvað gefur það þeim að eiga gæludýr.
Í rannsókn þessari sem er unnin sem B.A. verkefni mitt í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands munu verða tekin sex viðtöl. Einungis er tekið eitt viðtal við hvern þátttakanda og er gert ráð fyrir að hvert viðtal taki 45 mínútur. Þrjú viðtöl verða tekin á þessu ári og þrjú á fyrsta ársfjórðungi ársins 2007.
Öll viðtöl verða tekin upp á segulband, þau afrituð frá orði til orðs og síðan munu viðtölin verða innihaldsgreind með aðferðum eigindlegrar aðferðarfræði. Nöfn þátttakanda og aðrar persónugreinanlegar upplýsingar munu ekki koma fram, hvorki í skjölum sem innihalda afritun viðtala né í rannsóknarniðurstöðum. Sérstakur listi yfir nöfn þátttakenda og númerum viðtala mun vera geymdur í læstri hirslu á meðan á rannsókn stendur og mun vera eytt að lokinni rannsókn. Tilkynnt hefur verið um vinnslu rannsóknar þessarar til Persónuverndar. Samþykki þetta er í tvíriti og mun hver þátttakandi halda eftir eintaki.
Mér hefur verið kynnt eðli og umfang þessarar vísindarannsóknar og ég er samþykk(ur) þátttöku.
____________________________ ___________________________
Undirskrift þátttakanda Undirskrift rannsakanda