Siðareglur íslenskra félagsráðgjafa
Tilgangur

Grundvöllur félagsráðgjafar er virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fullnustu. Markmið félagsráðgjafar er að vinna að lausn félagslegra og persónulegra vandamála og sporna við félagslegu ranglæti. Félagsráðgjafi vinnur gegn mannréttindabrotum hvar svo sem þau eiga sér stað.

Frumskyldur

1. Félagsráðgjafi rækir starf sitt án manngreinarálits og virðir réttindi hverrar manneskju. Félagsráðgjafi kemur fram við skjólstæðing af heiðarleika, virðingu og leitast við að byggja upp gagnkvæmt traust.

2. Félagsráðgjafi upplýsir skjólstæðing um réttindi hans og skyldur, einnig um úrræði og hjálparmöguleika. Félagsráðgjafi gerir sér far um að virða og verja rétt hvers einstaklings til einkalífs og sjálfsákvörðunarréttar, svo fremi að það valdi öðrum ekki skaða. Geti skjólstæðingur ekki sjálfur gætt hagsmuna sinna, ber félagsráðgjafa að gæta þess að réttur hans sé ekki fyrir borð borinn.

3. Félagsráðgjafi gætir trúnaðar um þau mál sem hann verður áskynja í starfi sínu. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera samkvæmt lagaboði eða af brýnni nauðsyn.

4. Félagsráðgjafi gerir skjólstæðingi grein fyrir trúnaðarskyldu, upplýsingaöflun, skráningu máls og hvernig farið er með gögn. Félagsráðgjafi sér um að einstaklingur eigi jafnan aðgang að því sem skráð er í máli hans.

5. Félagsráðgjafi aflar ekki upplýsinga um skjólstæðing frá öðrum án samþykkis hans, nema þar sem lagaskylda býður að það sé gert. Þá skal einungis afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að vinna að málinu. Fari upptaka fram verður að afla skriflegs samþykkis skjólstæðings. Heimilt er að víkja frá trúnaðarskyldu, ef skjólstæðingur fer skriflega fram á að ákveðin persóna eða stofnun fái upplýsingar.

UA-53057823-1